136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu og ræðu til hv. þm. Bjarna Harðarsonar í Framsóknarflokki. Bjarni hefur látið hafa það eftir sér að haldið sé úti ESB-trúboði í boði ríkisins. Hann gerir í greinaskrifum athugasemdir við að ríkið skuli reka sömu áróðursdeild í bankanum Glitni með sömu starfsmönnum sem telji sig greinilega enn vera í krossferð. Hv. þingmaður víkur einnig að því að innan fjölmiðlanna sé því ítrekað haldið fram að fylgi við Evrópusambandsaðild sé mun meira en raunverulegar tölur gefi til kynna í skoðanakönnunum.

Hv. þingmaður hefur einnig látið fara frá sér greinar um einangrunarsinna og ESB en á sama tíma birta fjölmiðlar yfirlit yfir það að meiri hluti þingflokks Framsóknar vilji ESB-viðræður og vísa þar til niðurstöðu kjördæmaþings í Norðausturkjördæmi og viðtals við hv. þm. Birki Jón Jónsson. Þeir vísa einnig til upplýsinga frá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni og yfirlýsinga hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, sem lýsti því yfir að hún væri Evrópusinni og hefði stutt tillöguna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu á miðstjórnarfundinum. Þá hafa framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi einnig lýst þessu yfir.

Í framhaldi af kjördæmaþingi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í október sagði hv. þm. Bjarni Harðarson hins vegar að óróamenn í flokknum væru vísvitandi að vinna flokknum tjón með umræðum um Evrópumál. Ég spyr hv. þingmann: Er það svo að allir hinir séu óróamenn en hann einn sé sá sem vitið hafi?