136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég sakna þess að hv. formaður fjárlaganefndar hefur engan áhuga á að ræða þau málefni sem ég vék að og þann ágreining sem er í hans eigin flokki um þetta mál, það er slíkt tabú að ekki má um það tala. Vissulega eru þar Evrópuandstæðingar eins og í öllum flokkum og þetta mál gengur einfaldlega þvert á flokkslínur. Það er ekkert nýtt.

Það hefur verið venja að fjárlaganefnd fundi morgun hvern á haustdögum eftir að fjárlagafrumvarp er komið fram. Það hefur ekki verið svo nú. Fjárlaganefnd hefur í mesta lagi komið saman vikulega, einstöku sinnum tvisvar í viku — jú, ég skal viðurkenna það. (GSv: Jafnvel þrisvar í viku.) Það hefur komið fyrir að fundir hafi verið haldnir þrisvar í viku en það eru um það bil helmingi færri fundir en venja er á þessum árstíma. Fjárlaganefnd er enn ekki farin að fjalla að neinu leyti um fjárlagafrumvarpið sem þó er full ástæða til að fjalla um og (GSv: Það er ekki rétt.) taka fyrir gjaldahlið þess. Formaður nefndarinnar kallar hér fram í að þetta sé ekki rétt, það kann að vera að honum finnist það vera umfjöllun um fjárlagafrumvarpið að talað hafi verið um tekjuhliðina. Ekkert hefur verið fjallað um gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins sem vel er hægt að tala um. Það er vel hægt að kalla fyrir stofnanir ríkisins eins og gert hefur verið á þessum tíma og — (Gripið fram í: Hverjir voru á fundinum í gær?) formaður vill vekja athygli á því að mig hafi vantað á einn fund en ég vil benda á að Framsóknarflokkurinn hefur samanlagt hærra skor í mætingu á fundum fjárlaganefndar en Samfylkingin með sína þrjá fulltrúa. Og þó mig hafi vantað á einn fund þá tel ég það (Gripið fram í.) ekki vera rismikla umræðu að hrópa það upp hér. Ég kalla eftir því að þingnefndir taki til starfa um efnahagsmál og þau mál sem máli skipta en menn eyði ekki tíma sínum í karp sem þetta.