136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þau svör sem hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir gaf hér áðan. Ég óska þá eftir því við þingið að þessum fyrirspurnum og óskum verði fylgt eftir.

Það er alveg rétt að vissulega hafa málin verið rædd í viðskiptanefnd en það var líka brýn þörf á, t.d. málarekstur Kaupþings við breska ríkið, eitthvert mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar og kannski eina leiðin til að rétta af málstað okkar í Bretlandi. Hverjir héldu utan um þann málarekstur? Það var upplýst einmitt á nefndarfundi en þar kom líka í ljós að það er skilanefndin sem á að sjá um að halda málarekstrinum áfram og hún þarf fjármuni til þess og eftirrekstur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið fram að það verði gert en það var brýn þörf á að halda þann fund. Sama með neyðarfundinn um sparisjóðina vegna þess að þeir voru hársbreidd frá því að falla ásamt má segja restinni af fjármálakerfinu.

Ég beini því til forseta Alþingis að endurskoða til að mynda fyrirspurnatíma til ráðherra. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega skemmtilegt form, ég held að það væri miklu meira fjör og málefnalegri umræða að fá þingmenn til að ræða málin. Um hvað eigum við að ræða á þessum tíma annað en efnahagsmál þjóðarinnar? Viðskiptaráðherra var ekki hér í gær og því var hæstv. forsætisráðherra í rauninni eini maðurinn sem hægt var að beina fyrirspurn til. Eigum við að fara að ræða menntamál á þessum tíma. Það er búið að afboða alla fundi í menntamálanefnd og umhverfisnefnd. (Gripið fram í.) Þingið á að einbeita sér að þeim málum (Forseti hringir.) sem brenna á þjóðinni núna.