136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

104. mál
[14:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það má með sanni segja, eins og hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir benti á áðan, að minn tími sé kominn í þessum ræðustól — eða hvað? — þar sem dagskrá þingsins, gjörvallri dagskrá þingsins í dag er haldið uppi, af hverju? Fjórum fyrirspurnum frá undirritaðri og varða þær allar umhverfismál, fyrirspurnir sem voru lagðar fram löngu áður en til þessa svarta mánudags kom.

Hvað veldur? Við venjulegar aðstæður væri það fagnaðarefni að fá þann tíma sem maður þarf í ræðustól Alþingis undir hugðarefni sín. En því miður ber þetta ekki vott um annað en málefnafátækt ríkisstjórnarinnar sem ekki skilar neinu inn í þennan sal. Ég vil taka undir þau orð sem voru látin falla áðan og kröfur um annað verklag á Alþingi. Það stendur upp á ríkisstjórnina og stjórnarflokkana að koma með alvörumál inn í þingið. Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem treystir hvorki þingi né þjóð fyrir því sem hún er að pukrast með og á meðan eru menn verklausir í þingsal. En þingið kemur saman á hverjum degi og það er eins gott að ég tók vítamínin í morgun og lagðist ekki í rúmið vegna þess að þá hefði trúlega orðið að fella niður fundi á hv. Alþingi í dag.

Frú forseti. Þetta er ekki mjög skemmtileg staða. Ég átti um tvennt að velja og ég kýs auðvitað að halda uppi sóma þingsins og flytja fyrirspurnir mínar sem eru fjórar. Sú fyrsta er til hæstv. iðnaðarráðherra og er ég nú langt komin með ræðutíma minn þar um.

Í fyrirspurn minni vil ég vekja athygli á mikilli aukningu sem hefur orðið á loftaðbornu brennisteinsvetni en mælst hefur mikil aukning á því í mælistöðinni við Grensásveg í Reykjavík. Það tengist beint framkvæmdum á Hellisheiði. Það er ekki aðeins að mælingar sýni þetta heldur hefur orðið vart við mikil óþægindi vegna lyktarmengunar, mosi hefur drepist í stórum stíl bæði á Hellisheiði og í kringum Svartsengi og það blasa við áberandi brún brennisteinsmöstur í gömlu Búrfellslínunni sem núna heitir líklega Sogslína. Loks má til nefna að þrátt fyrir allan þann fjölda fólks sem vinnur við Hellisheiðarvirkjun þá eru bílastæði starfsmanna tóm vegna þess að gler og málmur tærast svo fljótt þarna upp frá að menn láta ekki bílana sína standa þarna part úr degi einu sinni.

Þetta er sem sagt tilefni þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram á þingskjali 112 og hlakka ég til að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við henni.