136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

104. mál
[14:11]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er kannski alveg rétt til orða tekið hjá hæstv. forseta að ég ætli að gera stutta athugasemd. Eftir að hafa hlýtt á fyrirspurnina og svör hæstv. ráðherra vil ég gera þá athugasemd við ummæli sem féllu í þingsalnum áðan frá hv. þingmönnum, m.a. hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur, sem voru þess eðlis að gert var lítið úr fyrirspurninni og þeim störfum þingsins að taka fyrir fyrirspurnir frá þingmönnum til ráðherra. Mér finnst slík framganga algjörlega óviðeigandi og ósæmandi og þingmönnunum til skammar.

Hitt kann að vera rétt og um það ekki mikill ágreiningur, að ég hygg, að það megi gera bragarbót á störfum þingsins og betrumbæta þau. Það höfum við þingmenn verið að gera á undanförnu þingi undir stjórn forseta Alþingis. Þeir þingmenn sem sjá ekkert annað en svart þessa dagana ættu þá að beita sér fyrir breytingum þar sem þeir hafa tök á í stað þess að gera lítið úr þeim verkum sem þingmenn (Forseti hringir.) eru að vinna.