136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

sæstrengir í friðlandi Surtseyjar.

77. mál
[14:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að fylgja úr hlaði með örfáum orðum fyrirspurn sem er að finna á þskj. 77 og er 77. mál þessa þings og fjallar um lagningu sæstrengja í friðlandi Surtseyjar.

Íslendingar njóta þess heiðurs að vera gæslumenn tveggja staða á heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir voru settir á skrána 2004 sem einstæðar menningarminjar og með ákvörðun heimsminjanefndarinnar 7. júní var Surtsey sett á skrána sem einstakar náttúruminjar.

Eins og flestir vita varð Surtsey til við eldgos á sjávarbotni og hlóðst upp á árunum 1963–1967. Strax 1965 var það sem var ofan sjávarborðs í Surtsey friðlýst en í aðdraganda tilnefningarinnar á heimsminjaskrána í janúar 2007 var friðlandið stækkað verulega með tilvísun í 53. gr. laga um náttúruvernd og nú nær friðlandið til eldstöðvarinnar allrar bæði ofan sjávar og neðan, þar með talið hinna sokknu eyja, Jólnis, Syrtlings og Surtlu og tiltekins hafsvæðis umhverfis eyna sjálfa.

Um friðlýsinguna gilda óvenjustrangar reglur, enda er henni ætlað að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar sjálfrar og án afskipta manna. Í 4. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að Umhverfisstofnun hafi með umsjón eyjarinnar að gera og hafi til ráðuneytis sex manna ráðgjafarnefnd sérfræðinga frá ýmsum stofnunum, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun og Umhverfisstofnun sem og Surtseyjarfélagi og tveimur fulltrúum frá Vestmannaeyjabæ. Samkvæmt 7. gr. sömu reglugerðar eru allar mannvirkjagerðir, jarðrask, efnistaka og aðrar breytingar á landi og hafsbotni innan friðlandsins óheimilar nema til komi leyfi Umhverfisstofnunar og að fenginni umsögn Surtseyjarfélagsins.

Mikið fagnaðarefni var að Surtsey var skráð á heimsminjalistann. Sjálf sagði hæstv. ráðherra í grein í Morgunblaðinu að það væri mikill heiður fyrir íslenska þjóð, en því fylgdi einnig aukin ábyrgð og skuldbinding um áframhaldandi verndun Surtseyjar. Það var því nokkuð að óvörum að í lok ágúst voru lagðir tveir sæstrengir Farice á 2,5 kílómetra kafla í gegnum friðlandið við Surtsey. Umhverfisstofnun veitti leyfi fyrir þessari framkvæmd þvert á umsagnir allra þar til bærra aðila.

Ég vakti máls á þessu fyrr í vetur en tel, eins og ég sagði þá, að umhverfisráðherra skuldi þingi og þjóð skýringu á því hvernig á því stóð að Umhverfisstofnun hunsaði álitin og það átölulaust af hálfu ráðuneytisins.