136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti.

105. mál
[14:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvernig háttað sé mælingum á loftbornu brennisteinsvetni á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.

Því er til að svara að brennisteinsvetni er mælt samfellt á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, við Grensásveg í Reykjavík, í Kópavogi og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Einnig hefur Orkuveita Reykjavíkur mælt styrk brennisteinsvetnis á nokkrum mælipunktum í stuttan tíma í Hveragerði og á Hellisheiðarsvæðinu en þar er ekki um að ræða samfelldar mælingar.

Þá er spurt hvar mælistöðvar séu staðsettar og hvenær þær hafi verið settar upp.

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnun hafa í sameiningu rekið mælistöð til margra ára við Grensásveg. Tæki til mælinga á brennisteinsvetni var sett upp í stöðinni í janúar 2006 eða fyrir tæplega þremur árum. Álverið í Straumsvík og Umhverfisstofnun reka saman mælistöð sem m.a. mælir brennisteinsvetni við golfvöllinn á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Hún var tekin í notkun í ágúst 2007. Nýjasta stöðin er færanleg mælistöð fyrir Kópavogsbæ sem m.a. mælir brennisteinsvetni. Hún er rekin af heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og var tekin í notkun í júní á þessu ári.

Þá er spurt hvort áform séu uppi um að fjölga mælistöðvum í byggð umhverfis Hellisheiði og hvort ráðherra telji forsvaranlegt að eina færanlega mælistöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar hafi verið óstarfhæf lengst af í sumar.

Í mati á umhverfisáhrifum hugsanlegra framkvæmda við Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun lagði Umhverfisstofnun til að komið yrði upp mælistöðvum fyrir brennisteinsvetni á Hellisheiðarsvæðinu og í Hveragerði ef farið verður út í þær framkvæmdir. Viljinn liggur fyrir og kemur það fram í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum þessara tveggja framkvæmda.

Stofnunin telur að hvort sem farið verði í Bitruvirkjun eða Hverahlíðarvirkjun eða ekki sé mjög æskilegt að gefa fullnægjandi mynd af mengun brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu og bæta við núverandi mælistöðvar nýrri mælistöð í Norðlingaholti vegna áhrifa frá Hellisheiðarvirkjun. Það mál verður tekið upp við útgefanda starfsleyfis Hellisheiðarvirkjunar sem mér skilst að sé Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Ég tel fyllilega tímabært að það verði gert og vonandi er þess ekki langt að bíða að mælistöð komi í Norðlingaholti.

Færanleg mælistöð Reykjavíkurborgar er ekki hluti af vöktunarkerfi Umhverfisstofnunar. Þar fyrir utan er ekki mælitæki fyrir brennisteinsvetni í stöðinni, að mér skilst, og hafa bilanir því ekki beinlínis áhrif á það. Stöðin er rekin á ábyrgð Reykjavíkurborgar og engin bein tengsl eru á milli mælinganna sem þar eru gerðar, þeirra sem stundaðar eru og vöktunarinnar sem Umhverfisstofnun sér um á loftgæðum.

En það er vissulega óheppilegt þegar mælistöðvar bila og mikilvægt að eftirlitsaðilar reyni að lágmarka tímann sem fer í viðgerðir. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun kemur það fyrir að við stærri bilanir þurfi að panta varahluti erlendis frá og það getur tekið einhvern tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur nituroxíðeining færanlegu mælistöðvar Reykjavíkurborgar verið óvirk í um þrjár vikur á þessu ári vegna bilana og svifrykseiningin í um það bil mánuð þannig að greinilega hefur nokkuð verið um bilanir.

Við þetta vil ég bæta, hæstv. forseti, að ég hef kynnt mér efni tillögu til þingsályktunar um takmörkun og losun brennisteinsefnis af manna völdum í andrúmslofti sem hv. þingmaður hefur lagt fram og mælt fyrir. Ég bíð þess eins og aðrir að fá tíðindi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni þegar lokið verður endurskoðun þar á skaðleysismörkum og öðru slíku. Ég tel einboðið að bæta þurfi bæði mælingar og regluverk og endurskoða þær reglugerðir sem um það fjalla í framhaldinu.