136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti.

105. mál
[14:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem voru skýr og fagna því að í bígerð er að fjölga mælistöðvum. Ég fagna því sérstaklega að koma eigi upp mælistöð í Norðlingaholti sem væri þá sú byggð, í Reykjavík alla vegana, sem er hvað næst upptökum mengunarinnar.

Ég saknaði þess hins vegar að fá ekki skýr svör við því hvort fyrirhugað sé að setja upp í Hveragerði slíka stöð vegna þess að í ljós hefur komið að sveitarfélagið Ölfus hefur bara frestað Bitruvirkjun í bili og Orkuveita Reykjavíkur heldur áfram undirbúningi að virkjun þar. Frá Bitru að næstu byggð í Hveragerði eru aðeins um sex kílómetrar þannig að ég held að það væri mjög mikilvægt að taka inn í starfsleyfi frekari virkjana á Hellisheiði skilyrði um að setja jafnframt upp mælistöð í Hveragerði.

Ég vil nefna þriðja staðinn og það er á útivistarsvæðunum því að Hengilssvæðið er mjög vinsælt til gönguferða og það er þekkt að áhrif brennisteinsvetnis eru aðallega á öndunarveg, augu og lungu. Þessi áhrif geta orðið mun skaðlegri við áreynslu þegar menn eru í kraftgöngu eða í fjallgöngu.

Ég tel ljóst af þessum svörum og þeim umræðum sem fram hafa farið í dag, herra forseti, að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi hér á landi. Við höfum ekki sett nein umhverfismörk á magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Mælingar eru enn langt frá uppsprettunum og við höfum ekki enn þá gert kröfu um hreinsunarbúnað í jarðvarmavirkjunum og séð hann virka. Því þarf að breyta og ég heiti stuðningi við ráðherrann í þeim efnum.