136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

meðafli við síldveiðar.

[10:55]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um meðafla við síldveiðar. Það er kannski erfitt að ræða slíkt mál á meðan þingið fær ekki að fjalla um alvörumál, fær ekki að fjalla um það sem skiptir máli núna, þá miklu kreppu sem við erum í. (Gripið fram í.) Það er allt of lítið fjallað um það og þinginu hefur verið haldið frá alvöruumræðu í heilan mánuð um alvörumálin sem skipta máli fyrir fólkið í landinu, fjölskyldurnar og atvinnulífið, sveitarfélögin og framtíð þjóðarinnar. Þrátt fyrir það ætlast ég til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari því til hve mikill meðafli var með síld á síðasta fiskveiðiári, þá á ég við af bolfiski, og hve mikill kvóti hafi verið greiddur fyrir þann meðafla.