136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

meðafli við síldveiðar.

[10:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skildi ekki þessa ræðu. Ég svaraði hv. þingmanni þannig að ég ber ekki á mér t.d. í vösunum upplýsingar um hver meðaflinn er við einstakar veiðar. Ég held að hv. þingmaður hljóti að skilja það. Það er ekki þannig, þó að ég reyni að fylgjast vel með í sjávarútvegi, að ég sé með á reiðum höndum svör við því hver meðafli er við einstakar veiðar á tilteknum árum.

Ég bauð hins vegar hv. þingmanni upp á (Gripið fram í.) að gerast hér handlangari fyrir hann og finna út úr því hversu mikill þessi afli er. Úr því að hv. þingmaður svaraði því ekki hvort hann vildi að ég gerði það í svari við formlegri fyrirspurn eða með öðrum hætti ætla ég að afla þessara upplýsinga og senda honum þær og það er auðvitað sjálfsagt mál að hv. Alþingi fái þessar upplýsingar líka.

Það er ekki verið að fela neitt og hv. þingmaður á ekki að temja sér það — þótt hann hafi gert það samviskusamlega — að snúa alltaf út úr.