136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:02]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta frábið ég mér dylgjur frá hv. þingmanni um að ég skuli ekki hafa verið hér þegar ég var í raun á fundi Norðurlandaráðs og fundi úti í Rússlandi með utanríkisráðherra ríkjanna með varamann í þinginu og starfandi bankamálaráðherra meðan ég var í burtu. Það eru afskaplega óviðurkvæmilegar og ósanngjarnar dylgjur af hálfu þingmannsins. (Gripið fram í.)

Efnislega er svarið við því ákaflega skýrt. Fjármálaeftirlitið mælti fyrir um slit peningamarkaðssjóðanna þannig að þeim er skipt í tvo hluta: Í A-hluta, laust fé sem er lagt strax inn á innlánsreikninga, og B-hluta, bundið fé greitt út mánaðarlega eftir því sem hægt er. Sjóðir á vegum viðskiptabankanna þriggja kusu að setja því sem næst allt í A-hlutann. Þeir áttu viðskipti við viðkomandi banka og matsverð á þeim eignum sem þingmaðurinn vísar til í frétt í Morgunblaðinu var fundið út með aðstoð utanaðkomandi aðila.

Hér er um að ræða viðskiptalega ákvörðun bankanna sjálfra. Ef þingmaðurinn ætlar að ræða þær allar á Alþingi á komandi mánuðum og missirum er nú ansi langt seilst.

Til að upplýsa hv. þingmann vegna spurningar hans um hina sjóðina, hvort verið sé að mismuna einhverjum er að sjálfsögðu ekki verið að því. Auðvitað er algjört grundvallaratriði að engum sé mismunað. Það er makalaust að leggja þetta upp með þessum hætti og nú standa yfir viðræður á milli forustumanna hinna sjóðanna — hann er að vísa í sjóði á vegum SPRON og MP og fleiri smærri fjármálafyrirtækja — við fulltrúa ráðuneytanna sem þarna eiga í hlut. Það hefur ekkert verið klárað í því máli. Auðvitað skiptir öllu máli að gæta jafnræðis á milli allra Íslendinga í því mikla uppgjöri sem nú stendur yfir. Það er rauður þráðurinn í málinu öllu og því er uppleggið mjög undarlegt hjá hv. þingmanni.