136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[11:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er almenns eðlis: Hvaða ráðagerðir eru uppi til varnar heimilunum í landinu, einkum þeim sem síst eru aflögufær í ljósi þess að ef ekki verður að gert blasir við vaxandi atvinnuleysi með stórfelldri kjararýrnun, ekki síst fyrir þessi heimili?

Alþingi gengur til þessarar umræðu nánast með bundið fyrir augun, ekki bara vegna þess að óljóst er um verðlagsþróun á gengi gjaldmiðilsins heldur vegna þess að við vitum ekki hvað ríkisstjórnin er búin að semja um fyrir okkar hönd á bak við Alþingi, á bak við þjóðina. Ríkisstjórnin hefur setið á ákvörðunarfundum með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um málefni sem varða almannahag, sem varða útgjöld ríkisins, sem varða hag heimilanna, sem varða lífskjörin í landinu án þess að málin komi til kasta Alþingis.

Að sjálfsögðu á umræða um alla stefnumótun að fara fram hér. En nei, Alþingi er ekki einu sinni upplýst um hvað farið hafi fram á milli ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessi vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar eru ekki bara ámælisverð, ekki bara forkastanleg. Þau eru tilræði við lýðræðið í landinu.

Okkur er sagt að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vilji ekki frétta um það á skotspónum hvað samið hafi verið um. En það er í lagi að þjóðin fái ekkert um það að vita þótt verið sé að semja um hennar kjör, hennar skuldbindingar og ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, þótt verið sé að semja á hennar kostnað.

Eitt vitum við þó, að ríkisstjórnin féllst á það fyrir okkar hönd og að okkur forspurðum að hækka stýrivexti um 50%. Að fara með þá upp í 18%. Það er ákvörðun sem smitar út í allt hagkerfið með hrikalegum afleiðingum fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu. Gera menn sér grein fyrir því að dráttarvextir á Íslandi eru nú komnir í 26,5%? Það þýðir að af hverri milljón sem komin er í vanskil þarf að borga 265 þús. kr. á ári. Hvaða afleiðingar halda menn að það hafi í för með sér fyrir skuldsett fyrirtæki eða heimilin?

Einstæðir foreldrar eru sá hópur sem þegar mælist í alvarlegustu fjárhagserfiðleikunum. Samkvæmt upplýsingum sem eru nýbirtar frá Creditinfo Ísland kemur fram að flestar einstæðar mæður eru með 250 þús. kr. eða minna á mánuði og af þeim eru 17% í vanskilum. Ég nefni þetta í samhengi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fallast á kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um vaxtahækkun. Það eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við og við hefðum að sjálfsögðu átt rétt á ræða hér á Alþingi áður en ríkisstjórn Geirs H. Haardes skuldbatt okkur til þessara afarkosta.

Ef við lítum á þróun kaupmáttar launa, annars vegar kaupgjaldsþróunina og hins vegar verðlagsþróunina á undanförnum mánuðum, kemur í ljós að frá upphafi ársins 2008 hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 12%. Á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um rúm 6,5%. Frá upphafi árs hefur kaupmáttur launa því rýrnað um tæp 5%. Þessi 5% þurfa heimilin að brúa.

Ef við horfum til kjarasamninga sem gerðir voru fyrr á þessu ári í mars, apríl og svo aftur í maí var samið um almenna hækkun launataxta sem nemur 20.300 þús. kr. Verðbólgan núna á ársgrundvelli er komin í tæp 16% og fer hækkandi. Sú kjarabót sem umsamin var í vor er að helmingi til uppétin og verður að öllu leyti uppétin um næstu áramót, m.a. af vaxtaófreskjunni. Vextir hjá Íbúðalánasjóði eru nú 5,4%. Lán upp á 10 millj. kr., tekið fyrir ári síðan, er núna komið í 11.600.000 og afborgunin af því láni hefur á þessu tímabili hækkað um tæpar 10 þús. kr. á mánuði.

Þeir sem eiga í mestum erfiðleikum eru að sjálfsögðu þeir sem missa atvinnu sína. Nú óttast menn að atvinnuleysi komi á næstu mánuðum til með að fara upp 4–5%. Eitt prósentustig í atvinnuleysi eru 1.700 einstaklingar. Í síðasta mánuði nam atvinnuleysið 1,3%. Það voru 2.300 manns. Bara í þeim mánuði sem nú er nýliðinn, í októbermánuði, hefur verið greint frá 64 hópuppsögnum. Tæplega 3.000 manns hafa þegar misst atvinnu sína og sú tala fer nú hækkandi ef ekkert róttækt verður að gert.

Ástæður uppsagna að sögn stjórnenda fyrirtækja er verkefnaskortur, fjárhagserfiðleikar, m.a. vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar að keyra upp vextina, og óvissan. Það er þriðji þátturinn sem stjórnendur fyrirtækja nefna, óvissan. En mest er óvissan hjá þeim einstaklingum og heimilum sem búa við bágbornust kjörin, hjá atvinnulausa manninum sem fær 136 þús. kr. á mánuði fyrir skatt. Það er einstaklingurinn og heimilið sem þarf að borga af húsnæðislánum sínum, sem þarf að standa straum af kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem fer hækkandi, eða vita menn að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa komugjöld í heilsugæslu verið hækkuð um 42%? Gera menn sér grein fyrir því? Og komur til sérfræðilækna um 22%?

Þetta eru ráðstafanir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þetta er forgangsröðunin. Ég er að tala um hækkun gagnvart öryrkjum og öldruðum, (Gripið fram í.) hv. þingmaður Samfylkingarinnar. Þið skuluð horfast í augu við ykkar eigin gerðir því að nú verður spurt um forgangsröðun.

Hvaða ráða hefur ríkisstjórnin sagt okkur að hún hyggist grípa til? — Frysta lánin. Það er góðra gjalda vert að frysta afborganir af lánum í eitt til þrjú ár. Það linar vissulega þjáningarnar um stund, ég ætla ekki að vanþakka það. En ég vil að við gerum okkur grein fyrir því að þessi frysting kemur til með að leggjast ofan á höfuðstólinn og verður þegar upp er staðið lenging í hengingarólinni. Þess vegna er kallað eftir róttækum aðgerðum.

Ég segi: Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að segja við atvinnulausa manninn sem er með 136 þús. kr. á mánuði? Hvað ætlar hann að segja við námsmanninn sem ekki kemur til með að rísa undir kostnaði af námslánum sínum? Hvað ætlar hann að segja við öryrkjann? Hvað ætlar hann að segja við þann aldraða? Hvað ætlar hann að segja við þá sem þurfa að leita til rándýrrar heilbrigðisþjónustu? Við segjum: Nú á að keyra niður vexti og lánskostnað með handafli. Nú á að lækka endurgreiðsluhlutfall lána. Nú á að afnema kostnað í heilsugæslunni og á spítölunum og draga úr öllum kostnaði við hina sjúku. Nú á að hækka greiðslur til öryrkja, til aldraðra, til atvinnulausra. Og nú bíðum við eftir svörum frá ríkisstjórninni, frá hæstv. forsætisráðherra.

Við erum búin að heyra hæstv. dómsmálaráðherra tala um nauðsyn þess að efla varnir. Við erum búin að heyra formann Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, tala um að nú verði að setja hálfan annan milljarð í nýja Varnarmálastofnun. En hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til varnar fátæku fólki á Íslandi? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir einstæðu móðurina sem komin er í vanskil með lánin sín? Fyrir námsmanninn sem ekki getur risið undir skuldbindingum sínum? Við öryrkjann? Hinn aldraða? Nú bíðum við svara.