136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[11:31]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu hans. Þar kom vissulega ýmislegt fram sem ríkisstjórnin er að vinna að og miðar að því að koma í veg fyrir það versta sem getur gerst, sem er að fólkið og fjölskyldurnar missi heimili sín.

Ég tel mjög mikilvægt að þessi umræða fari hér fram í dag og tel hana í raun vera þá mikilvægustu af öllum þeim umræðum sem við yfirleitt förum í gegnum á hv. Alþingi nú við þessar erfiðu aðstæður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum okkur við málefnin og reynum í sameiningu að komast að niðurstöðu um hvað rétt sé að gera og hvernig við getum komið hlutum þannig fyrir að það gerist ekki sem ég nefndi í upphafi, þ.e. að venjulegar íslenskar fjölskyldur lendi á vergangi.

Þetta umfjöllunarefni teygir anga sína vissulega víða því staða heimilanna er nátengd stöðu atvinnulífsins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að megináhersla yrði lögð á að halda uppi háu atvinnustigi þótt óneitanlega verði ekki hjá því komist að fólk missi vinnuna, en reynt verði að halda því í lágmarki. Þetta er vissulega aðalatriði, ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra. Uppsagnir eru nú þegar orðnar staðreynd og er hægt að telja í þúsundum það fólk sem nú þegar hefur misst vinnuna og maður hefur miklar áhyggjur af því að fólk flytji úr landi. Við megum ekki við því, þessi litla þjóð, að það verði atgervisflótti, ef svo má að orði komast, og þess vegna þarf að sinna ungu fólki sem nú þegar hefur misst vinnuna sérstaklega. Staða heimilanna er líka nátengd stöðu sveitarfélaganna vegna skólanna og vegna leikskólanna og ég kem að því síðar.

Fyrsta spurningin hlýtur að vera sú hvað við gerum til að aðstoða skuldsett fólk til að halda húsunum sínum, til að halda heimilunum. Það hefur mikið verið talað um Finnland nú síðustu dagana og þá erfiðleika sem Finnar fóru í gegnum fyrir aldamótin síðustu þegar þeir á sama tíma lentu í fjármálakreppu og misstu að auki mikilvæg viðskipti við Sovétríkin sálugu. Þetta leiddi til gríðarlega alvarlegs ástands í landinu og bókstaflega er hægt að tala um að hluti þjóðarinnar hafi soltið.

Vísir menn hafa haldið því fram að vandinn hér sé jafnvel enn þá meiri en var í Finnlandi. Það kemur til af því að nú ríkir heimskreppa á fjármálamörkuðum og lántaka erlendis er því mjög erfið og fjármálastarfsemi er hlutfallslega meiri hér en hún var í Finnlandi á sínum tíma. Ég ætla ekki meta það hvort vandinn hér er meiri í dag en hann var í Finnlandi á sínum tíma en ég geri mér a.m.k. grein fyrir því að hann er mikill. Á sama tíma erum við að fást við gjaldeyriskreppu með veikan og ef til vill ónothæfan gjaldmiðil.

Ég hef heyrt að stærstu mistök Finna á sínum tíma hafi einmitt verið þau að stjórnvöld reyndu ekki nægilega að koma í veg fyrir að fjölskyldur misstu heimili sín í nauðungarsölum sem síðar leiddi til stórra útlánatapa. Þetta er einmitt það sem við verðum að koma í veg fyrir að gerist hér á landi. Mér skilst á hæstv. forsætisráðherra að ýmislegt af því sem þegar hefur verið ákveðið og er í farvatninu sé hugsað til þess að svo verði ekki en ég skal þó viðurkenna að mér fannst ekki alveg nógu mikið koma fram af, ég vil segja, róttækum tillögum.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands er skuldsettasti hópurinn hér á landi fólk á fertugsaldri og voru meðalskuldir hjóna og sambúðarfólks á því aldursbili um 23 millj. kr. á síðasta ári. Þar af voru 75% skuldir vegna íbúðarhúsnæðis. Hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum þessa aldurshóps er á milli 250% og 350%, sem sagt gríðarleg skuldsetning.

Hæstv. forseti. Ég las í blöðum í dag að landssamtök lífeyrissjóða beina því til lífeyrissjóðanna að bjóða sjóðfélögum í greiðsluerfiðleikum að frysta lífeyrislán sín í 6–12 mánuði með því að breyta lánaskilmálum tímabundið. Einnig er mælt með því að tekið verði upp samstarf við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og mér heyrðist af ræðu hæstv. forsætisráðherra að þegar væri búið að koma hlutum svo fyrir að hún ætti eitthvað auðveldara með að starfa með auknum fjárframlögum. Það virðist vera svo að Landssamtök lífeyrissjóða hafi strax um miðjan október skipað starfshóp til þess að móta tillögur um það hvernig taka skuli á þessum vanda og ég tel að það sé til fyrirmyndar af hálfu samtakanna að bregðast svo skjótt við.

Hvað varðar Íbúðalánasjóð hefur hann vissulega fengið ákveðið hlutverk með neyðarlögunum sem samþykkt voru hér á Alþingi en mér segir svo hugur að þar sé mjög mikil óvissa um hvort sjóðurinn tekur í raun yfir þau lán sem eru hjá bönkunum og sjóðurinn muni í raun ekki sækja þau lán heldur þurfi frumkvæðið að koma frá bönkunum sjálfum. Stimpilgjöld skipta þarna miklu máli, að þau verði afnumin eða felld niður og lýsi ég ánægju með ef það er raunin.

Ég tel að það sé athyglisverð tillaga sem kom fram í ályktun ASÍ frá síðasta aðalfundi. Tillagan gengur út á það að í þeim tilfellum þegar fólk stendur bókstaflega frammi fyrir því að missa heimili sín verði heimilað að viðbótarlífeyrissparnað þeirra megi nýta til þess að greiða niður höfuðstól húsnæðisskulda. Mér finnst þetta vera tillaga sem verði að skoða alveg til hlítar því að hún gæti bjargað ýmsu, þótt ekki sé meira sagt.

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum dögum fengum við í heilbrigðisnefnd heimsókn fulltrúa frá landlækni og landlækni sjálfan og fulltrúa frá geðsviði Landspítalans. Frá þeim fengum við þær upplýsingar að ekki er enn þá hægt að tala um neina holskeflu sem leitar til heilbrigðiskerfisins en það kom líka fram að þessir aðilar óttast að fyrstu mánuðir (Forseti hringir.) næsta árs geti orðið mjög erfiðir.