136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[11:56]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lá undir ámæli nánast frá því hún tók við völdum fyrir aðgerðaleysi. Rifjum það aðeins upp. Þetta var aðgerðalaus ríkisstjórn og ráðherrunum sveið og þeir héldu varnarræður og þóttust ekki vera aðgerðalausir. En þjóðinni og stjórnarandstöðunni fannst ríkisstjórnin virkilega aðgerðalaus. Fannst skorta stjórn á efnahagsmálum. Fannst skorta stjórn á peningamálum. Nú síðustu vikurnar eftir hrun bankanna upplifir fólk aftur svipaða tilfinningu um aðgerðaleysi eða átakafælni ríkisstjórnarinnar.

Við settum neyðarlög fyrir mánuði síðan, 6. október. Fyrsta frumvarpið frá ríkisstjórninni eftir það, sem varðar vandann sem við erum í núna, leit dagsins ljós í dag, fjórum eða fimm vikum síðar. Þetta upplifir fólk í bráðavanda sem aðgerðaleysi. Sem leti, sljóleika og skilningsleysi á aðstæðum fólks.

Frumvarpið sem verður rætt í dag og ég geri ráð fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra mæli fyrir er auðvitað góðra gjalda vert. Það miðar að því að greiða hærri atvinnuleysisbætur til launþega sem eru ráðnir í lækkað starfshlutfall vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis eða opinbers aðila sem þeir starfa hjá. Sömuleiðis varðar það Ábyrgðasjóð launa að lögum um hann verði breytt þannig að þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað innan við tólf mánuðuðum áður en fékkst krafa um gjaldþrotaskipti verði tekið mið af þeim tekjum sem hann hafði áður en kom til lækkunar starfshlutfallsins. Svona lausnir, svona úrræði vill fólk sjá og hefur beðið eftir. Ríkisstjórnin hefur verið afar daufgerð og afar sein að koma með úrræði af þessu tagi.

Hæstv. forsætisráðherra nefnir í ræðu sinni ýmis atriði sem ríkisstjórnin vinnur að. Ég veit ekki hvort ég fylgist verr með fréttum en aðrir. En hæstv. ráðherra setur nú ákveðnar aðgerðir í samhengi í fyrsta skipti í mínum huga eftir að hrunið varð. Ég sakna afar mikið að ekki skuli hafa legið fyrir miklu fyrr og miklu skýrar hvað ríkisstjórnin er að gera og vinna að.

Hæstv. forseti. Mér kemur mjög á óvart að tími minn skuli vera búinn. Mér fannst ræðumaðurinn hér á undan mér hafa svo fínan tíma og gerði ráð fyrir að ég væri með svipaðan. Umræðan sem við fáum að taka hér á Alþingi er allt of stutt. Hún er af skornum skammti. Hún er skammarlega lítil (Forseti hringir.) og ber vott um hræðslu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) við að tala við stjórnarandstöðuna hér á (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga.