136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:13]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú þegar mánuður er liðinn frá því að Alþingi setti neyðarlög vegna fjármálakreppunnar er enn þá mikil óvissa um framvindu mála. Í því efnahagslega fári sem hefur gengið yfir síðustu vikur verður nú að leggja megináherslu á að halda atvinnufyrirtækjum starfhæfum, bæði stórum og smáum. Menn mega alls ekki láta einyrkjana í atvinnurekstri sigla sinn sjó í rekstrarstöðvun vegna þess að lána- og innheimtustofnanir vilji einkum tryggja rekstur stærri fyrirtækja og fórna þeim minni.

Stjórnvöld verða að vinna að því af öllu afli að atvinna og framleiðsla haldi velli í aðsteðjandi kreppu. Lánalengingar og afborgunarleysi næstu mánaða verða að standa fyrirtækjum og atvinnurekendum til boða sem fær leið út úr kreppunni. Atvinnuleysi er mesta böl sem landsmenn geta staðið frammi fyrir og því þarf að gera allt til að viðhalda og efla atvinnu. Þær atvinnugreinar sem afla okkur gjaldeyris eða spara eyðslu á gjaldeyri skipta okkur eins og sakir standa afar miklu máli.

Í morgun kom út spá Seðlabanka Íslands sem mig langar að vitna hér í. Ekki er nú bjart fram undan. Reiknað er með 20% verðbólgu í byrjun næsta árs og að atvinnuleysi geti orðið allt að 10% í lok næsta árs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Framhaldið er mjög óvíst og ræðst að miklu leyti af gengisþróun krónunnar. Verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur beðið hnekki og tæpast verður haldið áfram á grundvelli þess eins á næstu mánuðum.“

Þannig var boðskapurinn í grófum dráttum frá Seðlabankanum í morgun.

Nýleg 18% hækkun stýrivaxta Seðlabankans er aðgerð sem vinnur gegn því að styrkja atvinnurekstur í landinu og vegur hart að öllum þeim sem þurfa lán eða eru skuldsettir, jafnt fyrirtæki sem heimili í landinu. Hækkun vaxta og dráttarvaxta frá lánastofnunum í kjölfarið eykur aðeins á vandann. Þess vegna þarf að mati okkar frjálslyndra að beita afli til lækkunar á vaxtabyrði og verðtryggingar fyrirtækja og heimila. Heimilin eru mjög skuldsett og koma verður í veg fyrir fjöldagjaldþrot með öllum tiltækum ráðum. Má minna á ályktun ASÍ í því sambandi en þar segir, með leyfi forseta:

„Ársfundur ASÍ leggur þunga áherslu á að staða heimilanna verði varin eins og kostur er í þeim efnahagsþrengingum sem fram undan eru. Ljóst er að kaupmáttur launa mun skerðast á komandi missirum. Forgangsverkefnið við þessar aðstæður er því að lágmarka þann skaða sem heimilin standa frammi fyrir og leggja grunn að því að kaupmáttur geti sem fyrst vaxið aftur.“

Undir þessi orð ASÍ tökum við í Frjálslynda flokknum.

Framleiðsla, tekjur og störf eru skilyrði þess að við komumst sem best frá þeim þrengingum sem vissulega verða á vegi okkar Íslendinga næstu árin. Þar mun reyna á velferðarkerfið okkar. Afkoma aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og láglaunafólks verður erfið en einmitt þess vegna þurfum við að standa vörð um velferðarkerfi okkar og styrkja afkomu fólks eftir megni.

Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt til að tekjur fólks úr almennum lífeyrissjóðum verði með frítekjumarki gagnvart tekjutryggingu úr almannatryggingakerfinu líkt og nú er með atvinnutekjur og frá næstu áramótum gildi einnig um séreignarsparnað. Þessi tillaga okkar frjálslyndra vegna tekna úr lífeyrissjóði gæti hjálpað mörgum heimilum þar sem aldraðir og öryrkjar eiga hlut að máli vegna réttinda þeirra í almennum lífeyrissjóði sem þá væru með frítekjumarki sem ekki skerðir bætur frá (Forseti hringir.) almannatryggingakerfinu.