136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:24]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Við erum að tala hér um grafalvarlega hluti og mér blöskrar nokkuð það alvöruleysi sem er yfir umræðunni í máli hæstv. ráðherra sem reyndar sjá síðan ekki ástæðu til að vera viðstaddir þessa umræðu nú og ég tel það miður. Hér hefur verið talað vikum saman um aðgerðir en það liggja engar fyrir sem máli skipta. Það er ekki nóg að ráðherra gefi út yfirlýsingu um að kannski verði gripið til einhverra ráðstafana, fjölskyldurnar í landinu standa frammi fyrir mikilli neyð. Fjöldi ungs fólks og fólks á öllum aldri stendur frammi fyrir svo alvarlegum greiðsluerfiðleikum að það bíður þess að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta og það er mjög alvarlegur hlutur. Fjöldagjaldþrot í samfélagi okkar er mein eða sár sem ristir mjög djúpt og það hefur áhrif til áratuga, það hefur áhrif á líf þess manns sem fyrir því verður það sem eftir er.

Við lásum í fréttum fyrir nokkrum dögum að eitt af stóru fyrirtækjunum, máttarstólpunum, Samson, hefði verið í greiðslustöðvun. Þegar það fór út úr þeirri greiðslustöðvun lýsti það því yfir að það hefði reyndar aldrei átt krónu upp í þessar skuldir. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að sýna þann manndóm núna að stöðva algerlega aðfarir og gjaldþrot einstaklinga meðan unnið er úr mestu flækjunni. Það er ekki rétt forgangsröðun sem hér kom fram í máli hæstv. viðskiptaráðherra að mestu máli skipti að krónan komist á flot. Það er vissulega mikið atriði en mestu máli skiptir að koma í veg fyrir þau sár sem þessi kreppa getur valdið hjá saklausu fólki, ég segi saklausu vegna þess að bankarnir, fjármálakerfið og það mikla neyslufyllirí sem samfélagið allt hefur verið á hefur ginnt þetta fólk inn í vegferð sem það hafði ekki sérfræðiþekkingu til að meta hver væri og sérfræðingar landsins — það eru ekki bara stjórnmálamenn sem hafa brugðist — sérfræðingastéttin hefur ekki síður brugðist.

Varðandi það markmið sem hæstv. viðskiptaráðherra vill gera að fyrsta og mér heyrðist jafnvel eiginlega eina markmiðinu, að krónunni væri komið á flot, þá væri óskandi í því samhengi að það liði heill dagur, það liði, herra forseti, heill sólarhringur án þess að ráðherrar Samfylkingarinnar og þingmenn sama flokks töluðu krónuna niður. Það er ekki mjög líklegt að árangur náist í því máli meðan sífellt er sparkað í gjaldmiðil okkar og honum kennt um ófarir sem öllum á nú að vera ljóst að er algerlega að ósekju. (Forseti hringir.) Boðað hefur verið að hæstv. dómsmálaráðherra komi með frumvarp um greiðsluaðlögun í næstu viku en ég kalla eftir því að það verði strax á mánudag og hefði reyndar helst viljað að það yrði fyrr.