136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Efnahagsvandinn sem við er að glíma hér á landi í kjölfar fjármálahrunsins er geigvænlegur og kemur við alla Íslendinga, öll íslensk heimili. Efnahagslegt hrun fjölmargra heimila blasir satt að segja við.

Á fundi miðstjórnar Samiðnar í gær var fjallað um vaxandi atvinnuleysi og efnahagslegt hrun heimilanna.

Í ályktun Samiðnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Miðstjórn Samiðnar lýsir fullri ábyrgð á hendur íslenskum stjórnvöldum á því ástandi sem nú ríkir í landinu. Við blasir meira atvinnuleysi en þekkst hefur í marga áratugi og fram undan er efnahagslegt hrun þúsunda heimila. Orsakir þessa ástands eru að stórum hluta heimatilbúinn vandi, m.a. vegna óstjórnar í íslenskum efnahagsmálum til margra ára, sem hefur einkennst af óstöðugu gengi, mikilli verðbólgu, stjórnlausri gróðahyggju og duglausu eftirliti hins opinbera með fjármálastarfsemi í landinu.“

Síðar:

„Mikilvægt er að í þessum málum verði unnið hratt því að engan tíma má missa. Ef ekkert verður aðhafst blasir við að mikill hluti atvinnulífs stöðvast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Þetta segir m.a. í samþykkt miðstjórnar Samiðnar. Hér kristallast að sjálfsögðu kjarni málsins.

Við Íslendingar þurfum að ráðast í varnaraðgerðir. Fjárhagslegur varnarviðbúnaður heimilanna í landinu verður að felast í margháttuðum aðgerðum stjórnvalda en því miður hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið heldur fálmkennd. Vissulega er verið að kynna einhverjar aðgerðir til sögunnar sem eru góðra gjalda verðar og við hljótum öll að vilja standa á bak við.

Ýmsar leiðir geta að sjálfsögðu komið til álita, nokkrar hafa þegar verið nefndar í þessari umræðu og kynntar til sögunnar en ég nefni hér nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að ráðast í eða vil a.m.k. að verði látið skoða mjög alvarlega hvort forsendur eru til. Ég nefni frystingu verðtryggingar lána. Það er óðs manns æði að ætla að láta verðbólguskotið sem við erum að kljást við nú magna upp skuldabyrði með vísitöluhækkunum á sama tíma og kaupmáttur rýrnar geigvænlega og atvinnuleysi eykst dag frá degi.

Ég nefni vaxtabætur og húsaleigubætur. Til að styðja sérstaklega við þá sem hafa lágar tekjur, mikla framfærslubyrði eða hafa misst atvinnu á að hækka vaxtabætur til þeirra sérstaklega og hið sama verður að gera með húsaleigubæturnar. Ríkið á enn fremur að taka alfarið að sér húsaleigubætur og losa sveitarfélögin við þær enda munu sveitarfélögin þurfa að takast á við umtalsverðan aukinn kostnað vegna fjárhagsaðstoðar og ráðgjafar. Þá á að skoða möguleika á lengingu lána og flutningi afborgana en þó þarf að gæta þess að fjármagnskostnaður við slíkar ráðstafanir verði ekki óbærilegur. Það á e.t.v. að athuga möguleika á norskri leið, að innleiða möguleika einstaklinga og fjölskyldna til nauðasamninga þar sem tiltekinn hluti skulda er felldur niður í stað þess að setja fjölskyldurnar í þrot. Þessar og margvíslegar fleiri aðgerðir eru nauðsynlegar og hafa þarf hraðar hendur. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Nú þarf nýja hugsun og framsækna sýn og raunverulega verðmætasköpun byggða á hugviti, þekkingu og reynslu þeirra fjölmörgu sem hafa misst eða munu missa vinnuna. (Forseti hringir.) Ríkisstjórn sem ekki megnar að veita þá leiðsögn sem nú er svo brýn tapar (Forseti hringir.) allri tiltrú og trausti þjóðarinnar.