136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér afkomu heimilanna og það er afskaplega þörf umræða einmitt núna vegna þess að heimilin standa frammi fyrir verulega miklum vanda, verulega slæmum vanda, vanda sem við höfum aldrei séð áður hér á landi, alla vega ekki núlifandi menn. Ég tel að ef við horfum á afkomu heimilanna sé mikilvægast að horfa á atvinnuna. Fólk sem ekki hefur atvinnu er á margan hátt mjög illa sett, sálfræðilega, aflar ekki tekna, þarf bætur sem eru borgaðar af skattpeningum sem þarf að afla frá hinum sem hafa vinnu, þannig að það er mjög mikilvægt að viðhalda atvinnustiginu í landinu. Það ætti að vera verkefni númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur þegar við hugsum um afkomu heimilanna.

Til þess þurfum við t.d. að skoða stýrivexti. Ég held að þeir séu allt of háir til þess að viðhalda atvinnustigi, það er svo aftur mál sem við þurfum að skoða. Við þurfum að skoða það að lengja í lánum fyrirtækja, breyta gjaldþrotalögum, gæta þess að setja ekki fyrirtæki á hausinn nema algjöra og brýna nauðsyn beri til, leyfa þeim að lifa eins lengi og hægt er. Við þurfum að skoða atvinnuleysistryggingar. Þegar er komið fram frumvarp um að menn geti farið í hlutastörf, hlutaatvinnuleysi, og við þurfum að auka fjárveitingar til verkefna sem þurfa mikinn mannskap, við þurfum að fara að skoða þær fjárveitingar ríkisins sem veita atvinnu.

Við þurfum að vernda vissa þjóðfélagshópa með velferðarkerfinu, við þurfum að gæta barnanna sérstaklega. Ef maður hugsar til þess sem gerðist í Finnlandi á sínum tíma og lýst var hér í morgunútvarpinu í fyrradag þá er það alveg skelfilegt og það er eitthvað sem við þurfum að passa að komi ekki upp í íslensku þjóðfélagi. Við þurfum að gæta aldraðra og öryrkja og við þurfum að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustunni til að jafna þær byrðar þannig að enginn þurfi að borga óeðlilega mikið.

Við þurfum að standa vörð um verðtryggingu lána, merkilegt nokk. Lífeyrissjóðirnir, stærstu eigendur verðtryggðra krafna á Íslandi, eru að verða fyrir miklum áföllum og ef veita á þeim eitt höggið í viðbót með því að afnema verðtryggingu lána eru menn bara að segja að skerða eigi lífeyri gamla fólksins enn meira. Það finnst mér ekki falleg hugsun, ekki í þessari stöðu.

Við þurfum að vernda lántakendur, íbúðakaupendur og fólk sem er með bíla- og neyslulán. Menn geta haft alls konar skoðanir á því af hverju fólk fór út í þetta en staðan er svona, við þurfum að horfa á stöðuna eins og hún er núna. Við þurfum að hjálpa fólki við að minnka við sig íbúðir, við þurfum að hjálpa fólki við að selja bílana sína, við þurfum að hjálpa fólki að lengja í lánum, frysta afborganir lána, breyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán frá útgáfudegi, það væri t.d. ein lausn, því að verðtryggðu lánin eru miklu þægilegri afborgunar en gengistryggð lán, alla vega eins og staðan er núna.

Mest um vert tel ég vera að koma gengismarkaðnum á flot þannig að raunverulegt gengi myndist við krónuna og verðlag geti lækkað aftur og gengistryggðu lánin verði bærileg. Við erum búin að sækja um hjá IMF, sem ég vona að nái fram án óeðlilegra aukaskilyrða, að menn séu ekki að nota einhverjar þumalskrúfur þar eins og mér sýnist síðustu daga að sé reyndin.

Við Íslendingar stöndum nokkuð vel að vígi. Ef við ráðum við þessi jöklabréf sem við erum að dæla út höfum við mjög sterkan útflutning, verulega sterkan útflutning. Íslenska þjóðin er farin að spara þannig að vöruskiptajöfnuður og viðskiptajöfnuður er jákvæður og þegar upp er staðið munum við hafa meira framboð á erlendum gjaldeyri en eftirspurn þannig að gengi krónunnar mun styrkjast.