136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Þessi umræða er framhald á umræðu síðan í morgun um mál málanna, stöðu heimilanna í landinu. Ég hef kvatt mér hljóðs til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í stöðu húsnæðiseigenda almennt.

Eins og alþjóð veit hafa efnahagshamfarirnar sem hafa riðið yfir landið undanfarnar vikur haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslensk heimili og staða margra húsnæðiseigenda er mjög alvarleg. Við skulum játa það — og ég vil játa það — að margir Íslendingar hafa lifað mjög hratt og hátt á undanförnum árum. Sá sem hér stendur er alveg fús til að taka hluta af ábyrgðinni á sig.

Það mun jafnframt koma í hlut kynslóðar minnar að greiða háan reikning í kjölfar hamfaranna. Ég er tilbúinn til að taka þátt í því og er fullviss um að við munum gera það í sameiningu sem þjóð. Mikilvægt er að við stöndum saman á tímum sem þessum.

Þess vegna er mikilvægt að nú þegar ráðist stjórnvöld í aðgerðir sem skipta skulduga húsnæðiseigendur máli. Líkt og bent var á í umræðum í morgun er skuldsettasti þjóðfélagshópurinn hjón og sambúðarfólk á fertugsaldri, en það skuldar að jafnaði 23 millj. kr. Það segir sig sjálft að þegar annar aðilinn eða jafnvel báðir missa atvinnuna þá hriktir í. Því er bráðavandi á mörgum heimilum. Það er til skuldugt fólk sem getur því miður ekki staðið undir miklum skuldbindingum, herra forseti.

Ég er á því, eins og sagt var í umræðum í morgun, að við eigum að halda þessu fólki í landinu og ef það á hreinlega ekki gefast upp á því að lifa og starfa hérlendis verðum við að koma með einhver raunveruleg úrræði. Ég verð að játa það, herra forseti, að mig lengir eftir þessum úrræðum.

Ekki vantaði yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir mánuði síðan um að komið yrði til móts við þarfir skuldugra heimila. Ef ekki er hægt að standa við stóru orðin er betra að sleppa slíkum yfirlýsingum því almenningur verður að geta treyst orðum stjórnmálamanna, ekki síst á tímum sem þessum. Það er nauðsynlegt. Ég vil því, herra forseti, vitna í ummæli hæstv. viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar fyrir mánuði, með leyfi hæstv. forseta:

„,,Eitt af því mikilvægara sem við gerum er að koma til bjargar skuldugu fólki. Íbúðalánasjóður mun fá takmarkalausa heimild til að kaupa upp öll veðlán sem tengd eru húsnæðiskaupum,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra aðspurður um örlög fólksins í landinu sem tekið hefur húsnæðislán tengd erlendri mynt og horfir nú upp á að eiga enga möguleika á því að standa undir afborgunum sem hafa hækkað í hlutfalli við fall krónunnar. Björgvin segir að þau lán sem um ræðir verði tekin inn í Íbúðalánasjóð sem samkvæmt heimild muni lækka þau til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið. ,,Þannig munum við koma til móts við þá sem skulda.““

Þetta sagði hæstv. viðskiptaráðherra fyrir mánuði síðan. Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort þetta sé gerlegt. Ég vil líka spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort almenningur í landinu geti fært skuldir sínar úr bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð. Því heimildir mínar herma að það sé á valdi bankanna að færa ákveðinn stabba af skuldum til Íbúðalánasjóðs og almenningur hafi því miður ekkert um það að segja. Þar af leiðandi hafa yfirlýsingar hæstv. ráðherra fallið um sjálfar sig, þegar fólk hafði væntingar um að það gæti farið með lán sín yfir til þess góða sjóðs sem Íbúðalánasjóður er.

Einnig hefur verið lofað frumvarpi um greiðsluaðlögun, sem er mikið velferðarmál og mikilvægt að við komum á hér. Ég hef þær upplýsingar að málið sé í höndum réttarfarsnefndar sem mun ekki skila af sér fyrr en um næstu mánaðamót. Mjög langt er síðan hæstv. ráðherrar lofuðu frumvarpinu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við megum eiga von á að frumvarp um greiðsluaðlögun verði afgreitt frá Alþingi fyrir jól.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra um þær hugmyndir að lengja í lánum þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum hjá Íbúðalánasjóði og að lokum, hæstv. forseti, spyr ég um þá mikilvægu stofnun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir að starfsemi hennar verði stórefld (Forseti hringir.) því Ráðgjafarstofan aðstoðar margar fjölskyldur sem glíma við mikil vandamál (Forseti hringir.) þessi missirin.