136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[14:09]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.

Upp úr miðjum október komu fulltrúar félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins saman til að fara yfir hvaða áhrif þrengingar á fjármálamarkaði kynnu að hafa á innlendan vinnumarkað þar sem nokkur óvissa ríkir um stöðu og þróun á vinnumarkaði á næstu mánuðum.

Það liggur þó ljóst fyrir að mörg fyrirtæki horfast nú þegar í augu við verulegan samdrátt í starfsemi sinni sem óhjákvæmilega mun hafa í för með sér fjöldauppsagnir meðal launafólks og fjöldauppsagnir hafa verið gífurlega miklar á undanförnum dögum og vikum. Sumar fjöldauppsagnir hafa þegar litið dagsins ljós og telur Vinnumálastofnun að ástandið á vinnumarkaði geti versnað hratt á næstu vikum.

Þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu og byggjast á tillögum fulltrúa framangreindra aðila eru einmitt liður í því að koma til móts við atvinnulífið sem og launafólkið sjálft í þeim þrengingum sem fram undan eru. Það sem skiptir mestu máli er að hafist sé handa nú þegar. Það eru ráð sem okkur berast í ljósi reynslu annarra ríkja sem hafa lent í sambærilegum aðstæðum. Við verðum að hlusta á þessi ráð og læra af reynslu annarra. Ég vona að við komumst hjá því að missa atvinnuleysið í tveggja stafa tölu.

Ég segi þetta hér því það hefur reynst mörgum þjóðum erfiðleikum bundið að ráða við atvinnuleysið þegar það hefur náð að festa sig í sessi. Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir er liður í því að sporna við því og vænti ég þess að félags- og tryggingamálanefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, hraði afgreiðslu þess eins og kostur er. Ég hefði gjarnan viljað sjá að það yrði að lögum í þessum mánuði sé þess nokkur kostur þannig að það gæti þá tekið gildi sem fyrst.

Ég hef tekið undir með forustu atvinnulífsins og hvatt fyrirtækin í landinu til að skoða fyrst þann kost að skerða starfshlutfall starfsmanna sinna áður en gripið er til uppsagna þegar þau horfast í augu við tímabundinn rekstrarvanda. Meginmarkmið frumvarpsins er að fólk verði áfram virkt á vinnumarkaði, það er lykilatriði, í stað þess að missa alveg vinnuna til lengri eða skemmri tíma.

Er frumvarpi þessu ætlað að koma betur en áður til móts við aðstæður launafólks þegar það tekur á sig breytingar í ráðningarkjörum í formi skerts starfshlutfalls vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis þess er það starfar hjá. Í frumvarpinu er því lagt til að sá tími sem heimilt er að greiða fólki tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði lengdur hlutfallslega frá því sem nú er í samræmi við minnkað starfshlutfall þegar sótt er um atvinnuleysisbætur samhliða skertu starfshlutfalli. Þetta getur haft þau áhrif að launamaður sem hefur áunnið sér fullan rétt til atvinnuleysisbóta en þarf að lækka starfshlutfallið í 50% getur átt rétt á 50% tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði í stað þriggja mánaða áður, en þó aldrei í lengri tíma en sem nemur gildistíma laganna verði frumvarp þetta samþykkt sem lög.

Enn fremur er lagt til að skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf verði felld niður enda hafi launamaðurinn að lágmarki 50% starfshlutfall. Á það við hvort sem launamaðurinn á rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta eða grunnatvinnuleysisbóta.

Ef ég held mig við dæmið um launamanninn sem lækkar starfshlutfall sitt í 50% þá ætti hann rétt á atvinnuleysisbótum að hámarki 110.365 kr. en bæturnar reiknast hlutfallslega miðað við lægra starfshlutfall út frá þeim rétti sem viðkomandi á innan kerfisins. Lagt er til að þessar breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur verði tímabundnar og gildi til 1. maí 2009 en þá verði lögin endurskoðuð.

Framangreindar tillögur ganga í raun út á það að í stað þess að segja starfsfólki upp eða lækka við það launin yrði samið um lækkað starfshlutfall. Á móti launagreiðslum mundi Atvinnuleysistryggingasjóður greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur vegna þess starfshlutfalls sem sagt yrði upp. Launamaðurinn mundi þannig halda vinnunni og hluta tekna sinna hjá fyrirtækinu en Atvinnuleysistryggingasjóður mundi bæta 70% af tekjuskerðingunni. Þetta á við um þá sem eru með 315 þús. kr. eða minna á mánuði fyrir fullt starf en hámark atvinnuleysisbóta eru rúmar 220 þús. kr.

Í samanburði við algert atvinnuleysi mundi þessi leið draga mjög úr lífskjaraskerðingu launafólks. Gagnvart þeim sem hafa tekjur undir 315 þús. kr. fyrir fullt starf gæti dæmið litið svona út: Ef starfshlutfall yrði lækkað úr 100% í 50% mundi launamaðurinn halda 85% af fyrri launum í allt að sex mánuði en ef starfshlutfallið yrði lækkað úr 100% í 75% mundi launamaðurinn halda 92,5% af fyrri launum í allt að tólf mánuði þó aldrei lengur en nemur gildistíma laganna eins og ég nefndi hér áðan verði frumvarpið samþykkt hér á Alþingi.

Sjái fyrirtæki sér fært að fara að þessum tilmælum gerir það fleirum kleift að vera áfram virkir þátttakendur á vinnumarkaði en ella gæti orðið þar sem ætla má að færri missi starf sitt að öllu leyti. Ég hef reyndar fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun að mikið hafi verið spurt um þann sveigjanleika sem frumvarpið hefur upp á að bjóða innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Veit ég jafnframt að starfsfólk hefur þegar tekið á sig þá kjaraskerðingu sem felst í minnkuðu starfshlutfalli. Ég óska því eftir að þingmenn og hv. félags- og trygginganefnd skoði það sérstaklega hvort unnt sé að láta ákvæði 1. gr. frumvarpsins taka gildi frá og með 1. nóvember síðastliðnum. Þegar á heildina er litið er það mitt mat að þær leiðir sem lagðar eru til í frumvarpi þessu geti verið til hagsbóta fyrir alla aðila, einstaklingana sjálfa, fyrirtækin og samfélagið í heild.

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að staða margra fyrirtækja er svo alvarleg að ekki er lengur grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri þeirra og við blasir gjaldþrot. Eðlilegt er að fyrirtæki grípi til ýmissa aðgerða í lífróðri sínum til að auka líkurnar á að þau haldi velli næstu missirin. Þess vegna kunna að koma upp tilvik þar sem fyrirtæki hafa farið þá leið að skerða starfshlutfall starfsmanna sinna til að hagræða í rekstri sínum en síðan komið í ljós að gjaldþrotið er samt sem áður óumflýjanlegt. Við slíkar aðstæður, þegar starfshlutfall starfsmanna hefur verið skert skömmu fyrir gjaldþrot vinnuveitanda, er mikilvægt að réttur starfsmanna verði ekki fyrir borð borinn. Er því mikilvægt að dregið verði eins og frekast er unnt úr þeim áhrifum sem ákvarðanir vinnuveitenda um skert starfshlutfall kunna að hafa á réttindi starfsmanna innan velferðarkerfis okkar.

Með frumvarpinu er því lagt til að greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa verði miðaðar við vinnulaun starfsmanna fyrir þrjá síðustu starfsmánuði þeirra í þjónustu hins gjaldþrota vinnuveitanda áður en starfshlutfall þeirra var skert vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að tekið verði mið af sama tekjuviðmiði við útreikning bóta vegna launamissis í uppsagnarfresti.

Skilyrði er að héraðsdómara hafi borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda innan tólf mánaða frá því að starfshlutfall viðkomandi starfsmanns var skert. Miðað er við að framangreint gildi um kröfu launamanna um greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa sem minnkar starfshlutföll sín á tímabilinu 1. október 2008 til 31. desember 2009. Þá er mikilvægt að áunninn réttur launafólks haldist missi það atvinnu sína áður en kemur til fæðingarorlofs eða börn þess greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun. Það er þegar tryggt með lögum en sá tími sem foreldrar fá greiddar atvinnuleysisbætur, eru á biðtíma eftir slíkum bótum eða hafa átt rétt á þeim hefðu foreldrar skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar telst til þátttöku á vinnumarkaði í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og laga um greiðslu til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Í tilvikum ef foreldrar eru án atvinnu á tekjuviðmiðunartímabili framangreindra laga skal við útreikning á fjárhag greiðslna til foreldris tekið mið af þeim viðmiðunartekjum sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur foreldra voru miðaðar við. Á þetta ávallt við hvort sem foreldri hefur verið á tekjutengdum atvinnuleysisbótum eða grunnatvinnuleysisbótum á viðmiðunartímabilinu.

Virðulegi forseti. Við verðum að standa vörð um réttindi launafólks í landinu og draga úr atvinnuleysi eins og frekast er kostur. Það hlýtur líka að skipta fyrirtæki máli að geta haldið ráðningarsambandi við starfsmenn sína sem lengst þótt starfshlutfall sé hugsanlega lækkað en allir vinnuveitendur þekkja hvað starfsmannavelta getur kostað fyrirtækin mikið. Ég vona að fyrirtækið sjái sér hag í að halda ráðningarsambandi við fólkið sitt eins og kostur er í stað þess að segja því upp.

Þá vil ég ítreka það hér að það hefur jafnframt löngum verið talið árangursríkasta vinnumarkaðsúrræðið að gera fólki kleift að vera virkt á vinnumarkaði með einum eða öðrum hætti. Má því ætla að sú leið sem hér er lagt til að farin verði innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé til þess fallin að draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar til lengri tíma er litið. Þá á ég ekki endilega við sparnað vegna útgreiðslu atvinnuleysisbóta heldur ekki síður útgjöld vegna vinnumarkaðsúrræða.

Ég vona því svo sannarlega að frumvarpið komi til með að draga úr atvinnuleysi um leið og það gerir fólki kleift að aðlaga sig betur að fjárhagslega breyttum aðstæðum. Lagt er til að gildistími frumvarpsins verði tímabundinn eins og ég nefndi áðan. Ástæða þess er einkum sú óvissa sem ríkir um hver þróunin verður á íslenskum vinnumarkaði. En af þeim sökum tel ég mikilvægt að unnt verði að meta árangur þessara breytinga innan ekki of langs tíma.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu verður fylgst mjög náið með framvindu mála og komið með tillögur að breytingum strax og þurfa þykir.

Eins og ég nefndi áðan skiptir máli að við bregðumst skjótt við og því tel ég mikilvægt að afgreiðslu frumvarpsins verði hraðað eins og kostur er án þess að það hafi áhrif á málefnalega umræðu um efni þess.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og trygginganefndar.