136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og um Ábyrgðasjóð launa. Þetta er ein af þeim ráðstöfunum sem gripið er til í kjölfar þess að bankakerfið hrundi á Íslandi og þjóðin stendur þar með frammi fyrir mikilli vá. Hluti af því eru gífurlegar uppsagnir í síðasta mánuði, eitthvað sem ég held að við Íslendingar höfum aldrei þekkt áður. Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að atvinnuleysi er með því verra sem menn lenda í, ætti að vera óþekkt, það hefur gífurlega slæm áhrif á fólk sálrænt. Fólk upplifir það yfirleitt sem höfnun, það hefur ekki lengur hlutverk í þjóðfélaginu og reynslan hefur sýnt og rannsóknir hafa sýnt að fólk sem er frá vinnumarkaði lengur en sex mánuði, hvort sem það er vegna sjúkdóma, atvinnuleysis, slysa eða af öðrum ástæðum fer ekki aftur út á vinnumarkað. Það er bara þannig. Atvinnuleysið getur þannig leitt til örorku og er mjög alvarlegt mál, niðurbrot á sjálfsvirðingu fólks. Þetta verðum við að hindra og þetta frumvarp er liður í þá veru.

Ég tek undir með hv. þm. Ástu Ragnheiði að það þarf að virkja þetta fólk, en ég vil líka skora á það fólk sem nýorðið er atvinnulaust að virkja sjálft sig, mynda hópa, aðstoða hvert annað við atvinnuleit, aðstoða hvert annað við að vera virkt, mæta á einhvern stað á hverjum einasta degi þó að það sé atvinnulaust. Það er svo mikið atriði að menn komi innan um aðra, loki sig ekki af heima, það getur hindrað þetta niðurbrot sem ég talaði um. Fólkið sem nú verður atvinnulaust á sannarlega enga sök á því að það sé atvinnulaust, það eru allt aðrir kraftar sem valda því en eigin mistök.

Ég tek undir með hv. þm. Ástu Ragnheiði að við þurfum að hraða afgreiðslu þessa máls, ég bara vorkenni okkur ekki neitt. Það er laugardagur líka sem hægt er að vinna og sunnudagur, ekki skal standa á mér þótt ég þurfi að mæta klukkan þrjú á sunnudeginum eða klukkan átta um kvöldið geri ég það, að sjálfsögðu. Það liggur mikið fyrir og ég vil að þetta verði afgreitt í næstu viku, punktur, ekki orð um það meir.

Frumvarpið byggir að miklu leyti á dálítið sérstöku ástandi sem er á Íslandi, það er félagsleg ábyrgð fyrirtækja, hún er nefnilega miklu meiri en af er látið. Hún hefur verið töluvert mikil, (Gripið fram í: Áður.) nei, hún er enn þá til staðar sem betur fer og félagsleg ábyrgð fyrirtækja felst t.d. í því að segja fólki upp að hluta til. Í staðinn fyrir að segja 25% af mannskapnum upp geta þeir sagt öllum upp 25% hverjum og þá halda allir 75% vinnunnar. Það er allt önnur staða fyrir hvern einstakling. Hann mætir í vinnuna og hefur sínar skyldur og hin daglega rútína fer ekki úr skorðum. Þetta er mjög mikilvægt fyrir einstaklinginn, hann viðheldur sjálfsvirðingu sinni og hefur eitthvert hlutverk í lífinu. Þetta er hin félagslega ábyrgð fyrirtækja og ég reikna með því að hún sé til staðar og að hún verði til staðar áfram.

Svo er kannski neikvæð hlið þessa frumvarps, og við skulum bara tala um það opinskátt, að maður sem hefur milljón á mánuði og missir 25% af vinnunni fær bætur. Hann er með 750 þús. kr. fyrir dagvinnulaunin, fyrir 75% vinnu, og hann fengi þá 50 þús. kr. í bætur. Hvort menn vilja hafa það þannig, það getur vel verið að hv. nefnd vilji skoða þetta, en ég bendi bara á þetta til þess að menn átti sig á því að þetta er ekkert mjög félagslegt frumvarp, ekki þannig, það er ekki verið að bæta kjör þeirra sem verst eru settir eða með lægstu launin.

Það má líka benda á að svona hlutastarfsbætur eru mjög viðkvæmar fyrir misnotkun. Ég vil höfða til þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem nota þetta kerfi að misnota það ekki. Hér er verið að grípa til laga til þess að bæta stöðu manna, til þess að milda áhrif kreppunnar og ég skora á menn að sýna ekki tilburði til þess að misnota það á neinn máta en það er mjög viðkvæmt fyrir slíku.

Hér hefur verið rætt um að það eigi að auka menntun. Auðvitað á að auka menntun, það er bara allt annar handleggur. Ég lít alltaf á menntun sem fjárfestingu, ekki sem vinnu. Það er bæði vinna en líka fjárfesting og til þess höfum við ákveðið kerfi sem ég held að sé nokkuð gott og við eigum að auka framboð á menntun og það er reyndar búið að gera það með því að samþykkja frumvörp um breytingu á skólakerfinu öllu. Ég held því að við séum tiltölulega vel undir það búin að mæta kröfum um aukna menntun en það er það sem hugsanlega getur snúið þessu áfalli í jákvæða veru.

Svo má ekki gleyma því að þetta frumvarp getur hreinlega sparað fé. Ef það tekst að ráða menn í 25% starf í staðinn fyrir að segja mönnum upp eru útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs minni en ella og þetta er þá hreinlega fundið fé fyrir skattgreiðendur ef maður lítur þannig á það. Þá geri ég ráð fyrir því að engin misnotkun eigi sér stað því að það getur verið dýrt og það getur orðið til þess að menn bakki út úr lagasetningu sem ella er mjög skynsamleg og mjög góð ef misnotkun verður ekki of mikil.

En, eins og ég sagði áðan, ég mun vinna að því og standa að því ef vilji er fyrir því í hv. félags- og tryggingamálanefnd að vinna þetta mál hratt. Ég skal ekki standa á móti því og mun leggja því mína fyllstu krafta.