136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:45]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Frumvarpið er á þskj. 129 og er 119. mál þingsins.

Í því frumvarpi sem hér er lagt fram til að ferlið eftir þrot bankanna geti gengið eðlilega fyrir sig eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki er varða gjaldþrotaskipti og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja. Eru breytingarnar nauðsynlegar til að auðvelda það ferli sem fram undan er hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn í á grundvelli laga nr. 125/2008 eða neyðarlaganna svokölluðu.

Breytingarnar felast annars vegar í því að skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis er heimilað að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi, þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis. Til að útskýra kjarnann í þessari setningu, þ.e. þegar bú gömlu bankanna eru komin til skiptastjóra, þá eru margar af eignum bankanna fjármálafyrirtæki sem skiptir mjög miklu máli að halda í rekstri til að viðhalda verðmæti eignanna, koma í veg fyrir eignabruna, eignahrun o.s.frv. Eitt stærsta verkefni FME og skilanefndanna er að standa vörð um verðmæti eignanna, helst að koma í veg fyrir að þær séu seldar við þær erfiðu kringumstæður sem núna eru uppi í fjármálaheimi heimsins alls. Mikið er til þess vinnandi að halda utan um þessar eignir og þess vegna þarf skiptastjóri að geta haft þessa heimild tímabundna til starfsemi fjármálafyrirtækis. Það er algert lykilatriði. Fyrr en þessi breyting hefur verið afgreidd af þinginu getur þetta ferli ekki haldið áfram.

Hins vegar miða breytingarnar að því að lengja fresti og auðvelda tilkynningu fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið greiðslustöðvun. Þannig er gert ráð fyrir að greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis geti varað í 12 mánuði, en almenna reglan er 6 mánuðir.

Loks er í frumvarpinu lagt til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða sem heimilar frestun fyrirtöku máls er varðar greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis þrátt fyrir að greiðslustöðvun hafi verið veitt fyrir gildistöku laganna.

Eftir að frumvarpið var lagt fram hafa komið fram ábendingar m.a. frá skilanefnd Landsbankans um að æskilegt geti verið að gera fleiri breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki tengdar setningu laga nr. 125/2008.

Snúa þær breytingar í fyrsta lagi að því að tryggja það að heimildir gjaldþrotaskiptalaga til riftunar gerninga tapist ekki þegar skilanefndir eru skipaðar í fjármálafyrirtækjum.

Í öðru lagi hafa komið fram ábendingar um nauðsyn þess að sett verði í lögin ákvæði til bráðabirgða sem heimilar greiðslustöðvun vegna fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið hefur haft afskipti af á grundvelli 100. gr. a. í lögum um fjármálafyrirtæki. Fram hafa komið sjónarmið um að nauðsynlegt sé að lögfesta slíkt þar sem svo mikil óvissa ríkir um eignastöðu þeirra fjármálafyrirtækja vegna óvissuástandsins í heiminum og á fjármálamörkuðum almennt að ekki sé hægt að leggja raunhæft mat á það hvort ákvæði gjaldþrotaskiptalaga um veitingu greiðslustöðvunar séu uppfyllt. Óska ég því eftir því að hv. viðskiptanefnd taki þessi atriði til sérstakrar skoðunar og meðferðar þegar hún fer yfir þetta mál.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar. Ég gerði formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og stjórnarflokkanna, öllum fimm, grein fyrir því að þetta væri brýnt mál sem við þyrftum að koma í vinnu í nefndinni og afgreiða frá þinginu þannig að þetta ferli gæti haldið áfram og gengið sem allra best fyrir sig. Voru viðtökur við því að sjálfsögðu mjög góðar og þakka ég fyrir það.