136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:10]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, Alþingi þarf að koma að heildarendurskoðun og nýrri lagasetningu um fjármálafyrirtæki. Það er vandasamt verk og tekur sjálfsagt einhvern tíma, einhverjar vikur og mánuði. Við gátum ekki beðið með að hefja starfsrækslu nýju bankanna, þeir urðu að hefja starfsemi strax. Um svo mikið er að tefla að það er ekki og verður ekki of seint að breyta því.

Margt er í okkar höndum sem fjöllum um þetta mál í dag. Bankaráðin verða skipuð af fjármálaráðherra, þau eru tilnefnd af þingflokkunum. Það eru þau sem ráða að miklu leyti ferðinni og geta tekið ákvarðanir um starfsmannahald og það eiga þau og verða að gera. Það er ekki okkar að handstýra fjármálafyrirtækjunum úr ráðuneytunum frekar en öðrum ríkisfyrirtækjum. Þar eru kosnar stjórnir sem fara með slík mál þannig að það mun allt koma inn á Alþingi. Það verður Alþingi sem setur ný lög um fjármálafyrirtæki þegar búið er að fara í gegnum heildarendurskoðunina sem er verkefni þessara daga og vikna núna. Bönkunum urðum við að koma af stað og gera okkar besta til að tryggja starfsemi þeirra. Svo er hundruðum spurninga ósvarað um framtíð þeirra og það er Alþingis að svara þeim og setja bönkunum skorður.

Hvað varðar upplýsingalögin er þar um að ræða hlutafélög og um þau gilda hlutafélagalög. Til að starfsemi, stjórn og stjórnsýsla bankanna væru undir upplýsingalögum þyrfti að setja sérákvæði í lög til að þau næðu sérstaklega yfir bankana en ekki annað af því að lögin eiga við um hlutafélög. Það er svo margt sem við þurfum að skoða í þessu sambandi og betrumbæta.