136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:14]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur mikið gengið á í málefnum sparisjóðanna eins og annarra fjármálafyrirtækja hér og það á sér stað lífróður innan þeirra og fyrir þá. Mikil vinna hefur staðið yfir á milli sparisjóðanna og ríkisvaldsins síðustu vikurnar, enda sérstakt ákvæði í neyðarlögunum um 20% eiginfjáraukningu og fleira. Það er allt gert til að styrkja stöðu sparisjóðanna og koma í veg fyrir að þeir falli líka. Allt bendir til að það muni takast ágætlega að koma þeim til aðstoðar.

Þá er spurningin um lagagrunninn. Frumvarp er tilbúið og hefur verið það frá því í haust. Það var unnið í sumar og sl. vetur varðandi endurskoðun á lögum um sparisjóði. Það var gert í samstarfi við sparisjóðsfólkið og marga aðra. Upp komu álitamál en um þau náðist meira og minna sátt og samstaða. Málið er á leiðinni inn í þingið. Þá er það opið fyrir Alþingi að breyta hverju sem það vill í lögum um sparisjóði út frá fortíðinni og þeirri framtíð sem við viljum búa þeim. Frumvarpið sem verið hefur í smíðum er vandað og stórt. Mikil þróun hefur orðið á undanförnum árum á þessum fyrirtækjum og má segja að einhvers konar einkavæðing sparisjóðanna hafi farið af stað þegar menn fóru að versla með stofnhlutina á sínum tíma. Það hefur leitt til mikillar og að mörgu leyti óheppilegrar þróunar á stöðu sparisjóðanna. Eins og áður sagði er málið á leið inn í þingið og þá getum við tekið rækilega umræðu um stöðu sparisjóðanna og Alþingi. Viðskiptanefnd er í lófa lagið að breyta því sem hún vill í þeim efnum og ýmsar tillögur eru lagðar til breytinga á frumvarpinu.