136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

ásakanir um spillingu í fjármálakerfinu.

[15:12]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það mál sem mig langar til að ræða um er allt annað en skemmtilegt. Ég var eins og fleiri með fólki á laugardaginn og hlustaði á það sem stendur fólki næst í umræðunni sem nú er og ég heyri hana víðar, í bloggheimum og víðar, og það er spillingin í íslensku samfélagi og þær ásakanir sem hafa komið upp og eru að koma upp þessa dagana. Því er haldið fram — ég ætla ekki að fullyrða neitt um sannleiksgildi þess — að menn hafi tekið úr almenningshlutafélagi heilar 3 þúsund milljónir ófrjálsri hendi. Því er líka haldið fram að við kaupréttarsamninga í gömlu bönkunum hafi ekki allir setið við sama borð. Þar hafi bankamennirnir leikið sér áhættulaust meðan almenningur hætti öllu sínu til og tapaði því. Þetta vekur mikla gremju í samfélaginu. Ég hef verið spurður að því af hverju þingið ræði þetta ekki og ég hef verið spurður að því hver viðbrögð stjórnarinnar verði við þessum málum.

Ég hef kosið að beina fyrirspurn minni til hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að það háttar svo til, og frá því verður ekki vikist að hafa orð á í þessum sal, að makar tveggja ráðherra koma við sögu þeirra mála sem ég hef hér drepið á. Það er illt um að tala en það er enn verra um að þegja og þingið verður að taka þessi mál til umfjöllunar og verður að þora að tala um þau. Hæstv. menntamálaráðherra hefur upplýst að hún vilji þar alla hluti upp á borðið. Ég fer fram á svör ríkisstjórnarinnar um hvað hún ætlar að gera til að mæta þeirri kröfu almennings að um þetta sé talað og að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum. Það sem kallað er á í samfélaginu eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeim alvarlegu ásökunum sem fram eru komnar og ég kalla eftir svörum hjá oddamanni annars ríkisstjórnarflokksins í þeim efnum.