136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

ásakanir um spillingu í fjármálakerfinu.

[15:16]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. iðnaðarráðherra og ég er honum sammála um að við lifum hér í réttarríki og margt af því sem ég drep hér á heyrir undir ákveðnar stofnanir, það er rétt. En við megum ekki gleyma því að það heyrir líka undir hina pólitísku ábyrgð. Henni vörpum við ekki til stofnana, hana þurfa stjórnmálamenn að axla, hana þurfa stjórnmálaflokkarnir að axla, hana þurfa einstaklingar í stjórnmálum að axla. Það er eftir þeirri ábyrgð sem ég kalla og ég held að Alþingi verði — ef það vill ekki æsa til enn meiri átaka og ófriðar en var hér liðinn laugardag — að koma til móts við þá kröfu sem gerð er í samfélaginu, sem er réttmæt.

Það hefur komið fram að menn hafi gengið út úr þessu fyrirtæki þar sem blöð segja að hafi verið teknar 3.000 milljónir (Gripið fram í.) — þrír milljarðar. Komið hefur fram að þar hafi fólk gengið út með bundið (Forseti hringir.) fyrir munninn. Nú vil ég fá að vita hverjir vissu af því sem þarna fór fram og (Forseti hringir.) hverjir vissu það ekki. Við krefjumst svara við því, almenningur krefst þeirra svara.