136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

ásakanir um spillingu í fjármálakerfinu.

[15:18]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er eðlilegt í því andrúmslofti sem nú ríkir að tortryggni eflist þegar svör fást ekki. Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir að það þarf að rannsaka t.d. það mál sem hann gerði hér að umræðuefni. En ég ítreka að við eigum að varast það í þessum sal að fella dóma yfir einstaklingum áður en þeir hafi notið þeirrar verndar sem réttarríkið gefur þeim. Réttarríkið krefst þess að áður en menn fella dóma verði að rannsaka meinta sök þeirra og komast að niðurstöðu. (Gripið fram í.) — Þá kem ég að því, herra forseti.

Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að skoða þurfi öll tildrög þessarar atburðarásar og það er enginn sem hægt er að taka út fyrir sviga fyrir fram, ekki heldur stjórnmálamenn. Það þarf að skoða eftirlitsstofnanir, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og okkur sem í þessum sölum sitja, ekki síst ráðherra. Það er einfaldlega krafa almennings og krafa þessa þings að ekkert verði (Forseti hringir.) undan dregið og allt verði lagt á borðið. Þegar það liggur fyrir er sjálfsagt að hv. þingmaður komi hér og dragi sínar ályktanir.