136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[16:07]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um þorskeldi og ráðherra fyrir góð svör, svo og öðrum sem hafa tekið þátt í henni og lagt gott eitt til málanna. Það er greinilegur einhugur um þetta á Alþingi Íslendinga, bæði vegna þess að menn sjá að þetta er efling á atvinnugrein sem við höfum þekkingu á og kunnum að vinna og við höfum allt þetta fyrir hendi. Við það bætist svo að við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu þá verðum við að leggja áherslu á, þó að það gerist ekki bara einn, tveir og þrír, að byggja upp atvinnugreinar sem gefa okkur tekjur og skapa atvinnu og leiða af sér nýja möguleika. Ég veit t.d. að í þorskeldinu vestur á fjörðum hafa menn verið með rannsóknir á ljósum í tengslum við kynþroska þorsksins og allt í einu er framleiðsla þessara ljósa farin að verða möguleiki til sölu og tækifæra í iðnaði. Slík rannsóknastörf geta því leitt margt af sér og verið til góðs.

Ég þakka hæstv. ráðherra aftur og vil gleðjast yfir áliti hans, að hægt sé að framleiða 20 þúsund tonn á ári eftir sjö ár. Hvað þarf marga skuttogara til að veiða þann massa? Ég hugsa t.d. að að á einu ári gætu það verið u.þ.b. fjórir til fimm skuttogarar sem væru þá nær eingöngu í þorskveiðum. Hæstv. ráðherra sagði að þetta mundi kosta 6 milljarða, en hvað kosta fimm til sex skuttogarar? Það eru alveg gríðarlegar fjárhæðir sem þarna eru undir og auðvitað hætta þeir ekki veiðum eftir eitt ár en það er sama með þennan stofnkostnað sem hæstv. ráðherra talar um, 6 milljarða. Auðvitað nýtist þetta til fleiri ára.