136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[16:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þá jákvæðu, uppbyggilegu og málefnalegu umræðu sem hefur farið fram um þetta mál. Það er ánægjulegt að heyra að það er svo mikill samhugur meðal þingmanna um málið sem auðvitað mun skila sér þegar skýrsla nefndarinnar, sem ég gerði að umtalsefni, verður gerð heyrinkunnug en það verður innan tíðar. Það er rétt að það hefur aðeins tafist í lokin að ljúka frágangi hennar. Það eru einfaldlega fleiri flækjustig í málinu en við höfðum almennt áttað okkur á.

Hugsunin á bak við hugmyndina um seiðaeldisstöð eða seiðaeldisstöðvar sem vonandi verða í framtíðinni, er einmitt sú að auðvelda aðgang sem flestra að seiðunum. Það er alveg ljóst að einstök eldisfyrirtæki geta ekki farið í að byggja upp slíkar seiðaeldisstöðvar hver fyrir sig og þess vegna er svo mikilvægt að reyna að sameinast um fjárfestingu til þess að tryggja það að menn geti fengið aðgang að seiðunum.

Ég vil líka vekja athygli á því sem hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi að nú þegar er þetta orðin umtalsverð atvinnugrein þar sem hún hefur helst náð að festa sig í sessi, t.d. við Ísafjarðardjúp. Mér finnst ekki ótrúlegt að a.m.k. 100 manns og kannski fleiri hafi beinlínis framfæri sitt af vinnu við þorskeldi og í kringum það og þá er ég ekki að tala um hin afleiddu störf. Ef ég tek sem dæmi það fyrirtæki sem hefur verið hvað stórtækast í þorskeldinu þá er það hraðfrystihúsið Gunnvör í Ísafjarðarbæ. Þar er það þannig að fimmta hvern dag, einn dag í viku, er eingöngu unnið úr hráefni úr þorskeldinu, ekki bara af þorskeldiskvíum þessa fyrirtækis heldur líka úr þorskeldiskvíum annarra fyrirtækja þarna á slóðinni og þetta er því farið að hafa heilmikil áhrif á atvinnusköpunina við Ísafjarðardjúp.

Varðandi það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði þá hefur alveg frá upphafi verið mjög vel hugað að umhverfisþáttunum og bæði Matís, Hafrannsóknastofnun og Náttúrustofa Vestfjarða hafa sérstaklega hugað að því og á því sviði hefur byggst upp umtalsverð þekking. Ég hygg, virðulegi forseti, þegar grannt er skoðað að menn hafi staðið afar vel að þessum málum, ekki síst vegna þess að það eru fyrirtæki sem hafa leitt þessa þróun í mjög góðu samstarfi við vísindastofnanirnar í landinu. (Forseti hringir.) Það þarf ekki að brýna mig neitt í þessum efnum varðandi Vestfirðina, mér er það alveg ljóst að þar mun verða mikill vaxtarbroddur í rannsókna- og þróunarstarfinu.