136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:21]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mælt fyrir, um heimildir til að auka hlut fiskveiðiheimilda sem má geyma milli ára, sýnir hversu kerfið er orðið gatslitið og ófært um að ná þeim markmiðum sem því var sett í byrjun, þ.e. að við stjórn fiskveiða skyldi miðað að því að vernda fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Ekkert af því hefur gengið upp við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Hér er lagt til að auka hlut sem útgerðir mega geyma af fiskveiðiheimildum á milli ára úr 20% í 33%. Maður veltir því fyrir sér hver rökin séu fyrir þessu. Var ekki ætlunin að fiskveiðiheimildir á viðkomandi fiskveiðiár væru undir öllum venjulegum kringumstæðum veiddar og kæmu til vinnslu í sjávarbyggðunum í landinu á því ári? Á það að vera á valdi útgerðanna að ákveða hvort hún frestar þessu til næsta árs? Það er bara einn punkturinn.

Gerum okkur grein fyrir því hvað verið er að tala um. Við erum kannski með 130 þús. tonna þorskkvóta. Ef allar útgerðir færu í þær heimildir sem þar eru gefnar, því að ekki er sett neitt þak á það, mætti geyma um 50 þús. tonn á milli ára. Viljum við opna á það? Vafalaust má finna einstök tilvik hjá einstaklingi í útgerð sem þetta geti komið upp hjá innan þess kerfis sem nú er. En ég verð að segja að mér finnst þessi aðferð, þessi nálgun, ótrúverðug. Reyndar er verið að misnota fiskveiðistjórnarkerfið, svo gallað sem það er, með því að opna á þessar auknu heimildir. Það á ekki að vera á valdi útgerðarinnar einnar að ákveða atvinnustigið í fiskvinnslu í landinu. Það er afar óábyrgt að gefa útgerðunum einhliða heimild til þess að færa á milli ára og stýra atvinnunni með þessum hætti og sýnir hversu gallað eignarhaldsfiskveiðistjórnarkerfið er.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði: Þetta leiðir enn á ný til hækkunar á leigukvóta hjá þeim sem ekki eiga kvóta og eru að reyna að halda uppi veiði og vinnslustigi sínu. Örfáir einstaklingar eða útgerðir sem eru með mikinn kvóta geta þannig raskað grundvelli fiskvinnslu og fiskveiða hjá öðrum innan kerfis sem gengið er sér til húðar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram á síðasta þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þar lögðum við til að nú yrði kerfið allt endurskoðað, það hefði brugðist. Ef einhvern tíma var þörf á að gera það er það nú þegar við sjáum að fiskveiðarnar, auðlindin í sjónum, eru von okkar og traust í atvinnu og tekjuöflun þjóðarinnar.

Þeir voru nokkrir spámennirnir, foustumennirnir í íslensku atvinnulífi, sem sögðu að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn heyrðu í sjálfu sér fortíðinni til. Nú væri allt annað uppi og ánægjulegt að sjávarútvegurinn spilaði ekki eins stórt hlutverk og áður í atvinnulífi þjóðarinnar. Vissulega þurfa að vera sem fjölþættastar stoðir undir íslensku atvinnulífi en nú sjáum við að sjávarauðlindin okkar er sú dýrmætasta. Ég velti því fyrir mér, og vildi gjarnan heyra það frá hv. þm. Karli V. Matthíassyni, talsmanni Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og varaformanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar: Hefur þetta frumvarp gengið í gegnum þingflokk Samfylkingarinnar og verið samþykkt þar? Í öðru lagi: Hvað líður því ákvæði stjórnarsáttmálans sem var þó veiklega og aumingjalega kveðið á um, að fiskveiðistjórnarkerfið skyldi endurskoðað á kjörtímabilinu?

Ég hef heyrt persónulegar skoðanir hv. þingmanns á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég veit ekki alltaf hvort það er flokksins eða hans þar sem hann, hv. þm. Karl V. Matthíasson, hefur ítrekað að endurskoða beri kerfið. Þessi breyting er, að mér sýnist, eingöngu til þess að treysta enn betur í sessi varanlegt eignarhald eða yfirráð örfárra á fiskveiðiheimildinni svo að þeir geti síðan valsað með hana á milli ára. Ef stórar útgerðir hafa heimild til að fara með 33% af úthlutuðum aflaheimildum á milli ára er það ekkert smáræði sem þær hafa áhrif á bæði veiði og atvinnustigið.

Hvernig er síðan með ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hvað varðar meðferð og nýtingu á auðlindinni í sjónum? Ef það er í lagi að taka 30% frá þessu ári og vera þá búinn að lofa því upp í ermina á sér að veiða megi það á næsta ári, óháð því hvernig fiskstofnarnir eru settir? Mér finnst, frú forseti, að frumvarpið sé einungis árétting á hinu gallaða fiskveiðistjórnarkerfi. Við veiðum á hverjum tíma innan hvers árs þær heimildir og það sem við teljum að fiskveiðistofnar okkar þoli eftir þeim aðferðum sem við metum það. Á næsta ári úthlutum við aftur aflaheimildum á þeim grundvelli sem þá er talið, af hinum vísustu mönnum og stofnunum, að megi taka. Mér finnst, eins og þarna er verið að gera, að hægt sé að rokka svo gríðarlega til með að geyma aflaheimildir á milli ára — mér finnst í raun verið að gefa allri fiskveiðiráðgjöf, sem við höfum þó stuðst við á undanförnum árum, langt nef.

Vel má vera að það megi gera en þá á ekki að gera það á þessum forsendum. Ég ætla ekki fyrir fram að gera svo lítið úr fiskveiðiráðgjöfinni á undanförnum árum, sem við nú treystum á, að á þessum grunni sé hægt að segja að hún skipti engu máli. Það finnst mér ekki réttlátt. Að það sé í lagi að heimila að menn geymi 33% af aflaheimildum og færi á milli ára að eigin geðþótta sýnir, svo að ég ljúki máli mínu, ítrekað hvernig fiskveiðistjórnarkerfið er. Þegar það passar er því handstýrt á þennan hátt, þegar það passar á hinn veginn er því handstýrt á þann veginn. Hver er það sem líður fyrir þessi vinnubrögð og þessar aðgerðir? Jú, það er aumingja fiskurinn í sjónum sem veit aldrei á hverju hann á von á hverjum tíma frá stjórnvöldum. (Gripið fram í.) Það er fólkið í sjávarbyggðum landsins sem getur búið við það að ein útgerð ákveði að geyma 33% af afla sínum til næsta árs, fólkið sem hélt að það ætti að fá að vinna þennan afla í ár og hefur ekkert um það að segja að útgerðin ákveði svo. Hins vegar eru það þá bæði fiskvinnslur og útgerðir sem í núverandi kerfi hafa ekki fiskveiðiheimildir, kvóta, hafa byggt sína útgerð og sína fiskvinnslu á leiguheimildum, sem standa nú frammi fyrir enn meira óöryggi hvað það varðar og þurfa að kaupa hann dýrara verði.

Frú forseti. Þetta mál kemur svo til hv. sjávarútvegsnefndar en ég ítreka að mér virðist sem frumvarpið sýni það enn og einu sinni að fyllilega sé þörf á að taka allt fiskveiðistjórnarkerfið til endurskoðunar. Ég spyr: Var það ekki eitt af ákvæðum stjórnarsáttmálans?