136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:32]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er hægt að sjá hlutina misjöfnum augum. Þegar ég sá þetta frumvarp eins og það var lagt fyrir mig er það þannig að við getum hugsað okkur lítinn línubát sem er að róa á ýsu. Það er alveg að koma að lokum fiskveiðiársins og hann á eftir að veiða, við skulum segja 15 tonn af ýsu. Af því að tíminn er þannig verður hann annaðhvort að veiða það eða hann fær ekki að veiða það.

Með þessu er verið að rýmka möguleika þessa litla báts til að veiða ýsuna nema hann fari að veiða og veiða. Þá kemur kannski of mikill meðafli, t.d. þorskur, sem getur orðið til þess að menn fari að henda þorski af því þeir hafa ekki heimild fyrir honum.

Ég vil hins vegar taka undir það sem sagt hefur verið um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég tel að það eigi að endurskoða það og í stjórnarsáttmálanum kemur fram að skipa eigi nefnd til að skoða það. Úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna gefur okkur líka tilefni til þess. Ég vona að sú vinna fari sem fyrst í gang og tek undir með þeim þingmönnum sem vilja að það verði gert.

Það er náttúrlega oft erfitt að komast í málin eins snemma og maður vill. Við erum í ríkisstjórnarsamstarfi og það hefur verið gerður ákveðinn samningur um hlutina. Sumt fékk Samfylkingin í gegn og annað ekki og það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef margoft tjáð mig um þetta og skoðanir mínar á kvótakerfinu hafa ekkert breyst. (VS: Það stefnir í ríkisstjórnarslit.)