136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:20]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig með rökin og rökleysurnar að ég spyr: Ef Hafrannsóknastofnun segir að hámarksafli megi vera 130 þús. tonn má hámarksafli það fiskveiðiár vera 130 þús. tonn? Það er hin vísindalega viðmiðun ef um það er að ræða.

Ef frestað hefur verið veiðum á 40 þús. tonnum og veidd eru þau 130 tonn sem má veiða samkvæmt ráðstöfun og ráðleggingu Hafrannsóknastofnunar, má þá líka veiða þau 40 þús. tonn sem frestað er á þessu fiskveiðiári? Miðað við þá röksemd og sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu má það. Hver er þá hámarksaflinn? Einföld samlagning: 170 þús. tonn eða 40 þús. tonn umfram það hámark sem Hafrannsóknastofnun telur óhætt að veiða.

Það er það sem ég meina þegar ég segi að engin vitræn glóra sé í þessu miðað við þá hugmynd sem þeir tala um, að það eigi að vera vísindaleg verndun fiskimiðanna til þess að byggja upp fiskstofnana í sjónum svo sem hugmyndafræðin að baki þessu á að byggja á.

Ég spyr: Er það skoðun hæstv. sjávarútvegsráðherra að með því að geyma þau 40 þús. tonn, sem við skulum segja að verði geymd af þorskafla á þessu ári, geymist þau í sjónum og hægt sé að ganga að þeim ári síðar þannig að ef við veiðum ekkert á næsta ári megi hugsanlega veiða 260 þús. tonn af þorski á árinu 2010? Ímyndar einhver sér að lífkerfið virki með þeim hætti? Ég geri það ekki og ég get ómögulega lesið það út frá þeim skýringum og rökum sem koma fram hjá Hafrannsóknastofnun að einhver vitræn glóra sé í því sjónarmiði sem hæstv. sjávarútvegsráðherra setti fram.