136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:11]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, felur í sér ákveðna viðleitni til að takmarka útflutning á óunnum gámafiski, ísfiski, og reyna, þó í litlu sé, að stuðla að því að innlendar fiskvinnslur geti boðið í fiskinn. Í 1. gr. frumvarpsins, sem er eiginlega besta greinin í frumvarpinu, hinar eru allar miklu síðri, stendur, með leyfi forseta:

„Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.“

Í sjálfu sér væri gott ef frumvarpið stoppaði þarna og þetta væri alveg skýrt. Ég held að hafi einhvern tíma verið þörf á að innlendar fiskvinnslur, vinnufúsar hendur hér á landi, njóti forgangs við að vinna úr fiski sem veiddur er í íslenskri efnahagslögsögu sé það einmitt nú. Lagasetning á þessu sviði á því að vera skýr og klár. Að öllum fiski skuli landað hér og fiskvinnslur geti boðið í fiskinn hér, þá landaðan, á jafnréttisgrunni og hann sé vigtaður hér. Ef menn telja sig þurfa að standa við samninga um að erlendar fiskvinnslur eigi að geta boðið í fisk þá geta þær boðið í hann á jafnréttisgrunni við íslenska fiskvinnslu, og fiskurinn sé þá vigtaður hér og afgreiddur héðan. Þannig er þetta bara klippt og skorið. Mér sýnist frumvarpið ekki taka á því meginatriði, sem er þó yfirlýstur tilgangur þess, að tryggja ótvíræðan forgang innlendrar fiskvinnslu á þeim fiski sem veiddur er í íslenskri efnahagslögsögu.

Það var mjög misráðið þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra, fyrir einum tveimur árum, felldi af kvótaálagið á útflutning á gámafiski, enda fögnuðu fiskmarkaðseigendur í Grimsby og Hull. Þeir fögnuðu ekki sem áttu fiskvinnslurnar á Íslandi yfir þeirri aðgerð, enda var hún afar heimskuleg og gekk gegn íslenskum hagsmunum. Ég tel að stefnumörkun hvað þetta varðar eigi að vera skýr og á þá sem vilja flytja fisk ísaðan út ber að leggja sérstakan skatt, annaðhvort í formi kvótaálags meðan það er ellegar með öðrum hætti þannig að innlendar fiskvinnslur njóti ótvíræðs forgangs að þessari auðlind. Ekki, eins og hefur verið rakið, að ráðherra geti með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað úr erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn, enda sé fiskurinn seldur á opinberum fiskmarkaði sem hlotið hefur leyfi Fiskistofu og gildir þá einu hvort hann er erlendis. Þarna er verið að fara í kringum hlutina og veldur það í sjálfu sér miklum vonbrigðum.

Ég veit ekki nákvæmlega, og fróðlegt hefði verið að heyra það, hve mikið hefur verið flutt út af ísuðum gámafiski á þessu ári. Ég hef þó heyrt að ekki hafi dregið úr þeim útflutningi á þessu ári. Ég veit að á síðustu árum hafa komið til vinnslu innan lands — um 60% af öllum bolfiski voru almennt unnin innan lands. Á síðustu árum hefur þetta aftur vaxið og ef ég man rétt minnir mig að um 50 þús. tonn, milli 50 og 60 þús. tonn, af botnfiski hafi verið flutt út á árinu 2007 eða 2006. Er þar ekki talinn með flugfiskurinn sem að sjálfsögðu er unninn fiskur og allt gott um það, heldur fiskur sem er fluttur út ísaður í gámum án þess að hafa komið hér í gegnum íslenska fiskmarkaði eða íslenskar hafnir.

Í Morgunblaðinu er ágæt grein í dag. Fyrirsögnin er, með leyfi forseta: „Nýta mætti verðmætin mun betur.“ Þar fjallar Gunnar Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Flúðafisks, um nýtingu og hvernig auka megi verðmæti úr sjávarafla landsmanna. Hann telur t.d. að skylda eigi frystitogarana til að koma með allt í land og bendir á verðmæti hausanna. Segir hér að sér vitanlega hirði aðeins tvær útgerðir fiskiskipa hausana að hluta, Ögurvík og Fish Seafood á Sauðárkróki. Hann rekur í grein sinni hvernig fiskhlutum, sem mætti skapa úr verðmæti, er hent um borð í frystitogurunum. Ég held að krafan eigi að vera harðari í því að allir komi með allt að landi, fisk með haus og sporð og öllu því sem honum fylgir þannig að hægt sé að vinna það hér. Það á að vera frumskilyrði. Allur sá fiskur sem veiðist í íslenskri efnahagslögsögu á að koma inn til Íslands. Það ætti að vera forgangskrafa að það skuli þá skattlagt með einum eða öðrum hætti til að torvelda að það sé flutt út eins og hér er verið að gera. Mér kæmi ekki á óvart að milli 50 og 60 þús. tonn af óunnum fiski hafi verið flutt út á þessu ári. Það er óhæft að á meðan niðurskurður er á aflaheimildum og fiskvinnslur víða um land verða að loka vegna hráefnisskorts — fólki er sagt upp, fólk missir vinnuna — skuli það enn leyfast að óunninn ísaður fiskur sé fluttur úr landi án þess að gefa Íslendingum tækifæri til að vinna úr þeim fiski.

Nei, frú forseti. Ég tel að hér þurfi að setja þannig skorður að nánast útilokað sé að flytja óunninn fisk með þessum hætti út eins og hér er verið að heimila með undanþágum, hann á allur að koma til vinnslu hér. Hvers á fólkið í sjávarbyggðunum að gjalda? Er það eingöngu einhliða geðþóttaákvörðun hverrar útgerðar hvort fiskurinn sem er veiddur úti fyrir ströndum fólksins í sjávarbyggðunum sé fluttur út á markaði og unninn þar en því ekki gefinn kostur á að ná þessum fiski? Þetta á ekki að vera þannig og þetta er dæmigert fyrir það hvernig þeir sem telja sig fara með ímyndað eignarhald á fiskveiðiheimildunum halda að þeir geti ráðstafað þeim að vild, flutt fiskinn óunninn úr landi ef því er að skipta, en fólkið, þjóðin, íbúarnir í sjávarbyggðunum, hafi ekkert um það að segja.

Nú er horft til sjávarauðlindarinnar í efnahagslegu og atvinnulegu tilliti. Hvað ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að segja við fólkið í sjávarbyggðunum, í fiskvinnslunum, fólkið sem er að missa vinnuna, eða fólkið sem vill komast í fiskvinnu? Að horfa á tugi þúsunda tonna af sjávarafla fluttan úr landi óunninn og ísaðan — mér finnst það vera hneyksli. Við eigum að hafa dugnað, þor og réttlætiskennd og bera þjóðarhag fyrir brjósti. Við eigum að tryggja að sjávarafla, sem veiddur er á Íslandsmiðum, sé skilyrðislaust og án undanþágu landað í íslenskum höfnum og unninn þar og gerður að verðmæti og fluttur út sem slíkur.