136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna framkomnu frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég tel að það muni verða til bóta fyrir sjávarútveginn sem heild og sem atvinnugrein. Sá sem hér stendur fékk það verkefni að leiða þriggja manna vinnuhóp til að undirbúa tillögugerð vegna þessa lagafrumvarps, sem m.a. var í kjölfar þeirrar ákvörðunar hæstv. ráðherra að afnema svokallað kvótaálag vegna útflutnings á ísuðum fiski á erlenda markaði. Það er rétt að hafa það í huga, m.a. vegna þess sem kom fram hér hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að sú staða sem sjávarútvegsráðherra var í þegar kom að þeirri ákvörðun að afnema kvótaálagið helgaðist m.a. af niðurstöðu samkeppnisráðs sem hafði gefið út úrskurð þann 29. mars 1999 þar sem fram kom eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Með vísan til alls framanritaðs er það álit samkeppnisráðs að ákvæði laga og reglugerða um stjórn fiskveiða sem gera ráð fyrir sérstöku kvótaálagi á afla sem seldur er ferskur á erlendum markaði, feli í sér mismunun milli innlendra útgerðarfyrirtækja og raski samkeppnisstöðu þeirra innbyrðis, að svo miklu leyti sem fyrirkomulagið styðst ekki við hlutlæg sjónarmið á borð við rýrnun afla. Þá er fyrirkomulag þetta til þess fallið að skekkja verðmyndun á þeim afurðum sem um ræðir, það hamlar gegn eðlilegri markaðssókn útgerðarfyrirtækja erlendis og er til þess fallið að draga úr hagkvæmri nýtingu þeirra framleiðsluþátta sem um ræðir. Kvótaálagið fer því gegn markmiði samkeppnislaga, sbr. 1. gr. þeirra.“

Þetta var bakgrunnur þeirrar ákvörðunar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra tók þegar ákveðið var að afnema þetta kvótaálag.

Það er alveg rétt að það er áhyggjuefni fyrir íslenska fiskvinnslu ef stór hluti af þeim afla sem veiddur er á Íslandsmiðum er fluttur út óunninn, sérstaklega þannig að ekki gefist tækifæri fyrir íslenska fiskvinnslu að bjóða í þann afla. Verkefni nefndarinnar var því fyrst og fremst að ná að leiða saman hagsmuni útgerðarinnar annars vegar og þar með sjómanna og hagsmuni fiskvinnslunnar og fiskvinnslufólks hins vegar. Það voru mörg álitamál sem litið var til og eins og þingmenn, margir, þekkja sem fylgjast með umræðum um sjávarútvegsmál hafði verið umtalsverð umræða um það hvort mál og vog væru rétt þegar kæmi að útflutningi á óvigtuðum fiski á fiskmarkaðina m.a. í Grimsby og Hull en einnig á fiskmarkaðinn í Bremerhaven. Nefndin átti því fundi með fjölmörgum aðilum sem höfðu tjáð sig um þessi mál og höfðu þekkingu á þeim. Það verður að segjast eins og er að fram komu margar sögur um áhyggjur manna af misferli en það var minna um sannanir. Þó kom það fram hjá allflestum að menn töldu að dregið hefði úr slíku hátterni að menn væru með einhverjum hætti að fara fram hjá vog með slík viðskipti á fiskmarkaðina erlendis.

Nefndin fór í febrúarmánuði síðastliðnum og heimsótti sérstaklega fiskmarkaðina bæði í Hull og Grimsby og kannaði þá vel, fylgdist með öllu verklagi og hvernig eftirliti á þeim mörkuðum var háttað. Það var skoðun þess sem hér stendur að mjög vel væri haldið á málum á fiskmarkaðnum í Hull, hann væri mjög tæknivæddur og það þyrfti mikinn og einbeittan brotavilja og aðkomu mjög margra aðila til að ná því að hafa rangt við. Jafnframt verður sá sem hér stendur að segja að hann hafði meiri áhyggjur af fiskmarkaðnum í Grimsby, að hann væri ekki eins vel úr garði gerður og fiskmarkaðurinn í Hull til að tryggja þetta öryggi. Þar með er ekki sagt að ég sé þeirrar skoðunar að þar hafi farið fram eitthvert svindl heldur hitt að maður hafði ekki sömu öryggistilfinningu og maður hafði gagnvart fiskmarkaðnum í Hull.

Meginatriðið var þetta: Hvernig á að tryggja aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að þeim afla sem fluttur er út? Og enn og aftur: Hér þurfa að fara saman hagsmunir sjómannanna og útgerðanna og hins vegar fiskvinnslunnar og fiskverkafólksins. Þeir hagsmunir liggja saman í þeim punkti að útgerðir fái sem hæst verð fyrir sinn afla og um leið að fiskvinnslan hafi tækifæri til þess að bjóða í hann svo hún geti nýtt framleiðslugetu sína og keppt við aðrar fiskvinnslur hvort heldur er innlendar eða erlendar. Þetta hefur verið rekið þannig fram til þessa að útgerðarmenn þurfa að tilkynna Fiskistofu með 24 tíma fyrirvara ef þeir hyggjast setja fiskinn í gám til útflutnings óvigtaðan og það hefur svo gengið fram með þeim hætti að menn geta séð það á vef Fiskistofu að um slíkan útflutning sé að ræða og þeir geta síðan hringt hver í annan o.s.frv., reynt að ná kaupum saman í gegnum síma eða með einhverjum slíkum hætti. Augljóslega er þetta ekki góður markaður, þetta er ekki markaður sem kallar fram hæsta mögulega verð hjá íslenskri fiskvinnslu.

Niðurstaða nefndarinnar var því sú að búa þyrfti til uppboðsmarkað sem reyndar var kominn vísir að á vegum fiskmarkaðanna hér á landi, sá vísir er kallaður Fjölnetið, en skapa þyrfti styrkara lagaumhverfi utan um þann markað og gera það þannig að ef útgerðarmaður hygðist flytja afla á erlenda markaði, óvigtaðan á Íslandi, yrði það að vera tryggt að sá fiskur yrði boðinn til kaups fyrir innlenda fiskvinnslu, að hún gæti með öðrum orðum sýnt á spilin, sýnt hver kaupgetan væri. Það er ekki bara hagur íslensku fiskvinnslunnar, það er líka hagur íslensku útgerðarinnar af því að það segir mér enginn neitt annað en að íslenskir útgerðarmenn vilji bara fá sem hæst verð fyrir sinn fisk, það eru hagsmunir þeirra og sjómanna þeirra. Þá skiptir auðvitað máli að samkeppnisgrundvöllurinn sé jafn, þ.e. að menn geti treyst því kerfi sem heldur utan um þetta, þ.e. fiskmarkaðirnir erlendis og eftirlitið á Íslandi, að menn geti treyst þessum þáttum. Það er lykilatriði og um það er töluvert fjallað í þeirri skýrslu sem nefndin skilaði frá sér. Þetta er grunnhugmyndin í því frumvarpi sem hér er til umræðu, þ.e. möguleiki fiskvinnslunnar til að bjóða í afla sem menn hyggjast flytja á erlenda fiskmarkaði.

Einnig var rætt um rýrnun í nefndinni vegna þess að eins og kom fram í áliti samkeppnisráðs sem ég vitnaði til, þá geta verið málefnaleg rök fyrir kvótaálagi á grundvelli rýrnunar. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá MATÍS sem áður var Rannsóknarstofa fiskiðnaðarins. Sú stofnun skilaði okkur að mínu mati mjög ágætri vinnu og ágætri skýrslu yfir þær rannsóknir sem hafa farið fram á rýrnun og hvaða þættir það eru sem þar skipta mestu máli og niðurstöður þeirra rannsókna eru birtar í skýrslunni sem nefndin skilaði og dreift var til þingmanna síðastliðið vor.

Þetta eru þeir þættir sem ég tel að skipti máli hvað varðar þetta frumvarp. Ég get tekið undir það sjónarmið með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að það skiptir miklu máli að hafa jafnan aðgang fyrir útgerðir á fiskmarkaðina vegna þess að heilmikil verðmæti geta verið fólgin í því fyrir íslenskan sjávarútveg að geta flutt fisk út á erlenda fiskmarkaði. Það er löng saga og löng hefð á bak við slíkan útflutning, bæði með beinum siglingum og eins með gámafiskinn. Þegar menn horfa á þetta horfa þeir fyrst og fremst á heildarhagsmuni sjávarútvegsins. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því og ég held að það sé algjörlega útilokað, þó að hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti tekið upp á ýmsu, að ráðherra fari að grípa til reglugerðarákvæða til að mismuna mönnum hvað þetta varðar. Regluverkið er mjög einfalt, allir geta flutt út þegar þeir vilja að gefnum ákveðnum skilyrðum. Það er bara ekki hægt, jafnvel þó að hæstv. ráðherra vildi — sem ég hef ekki nokkra ástæðu til að ætla — að beita slíkri mismunun, menn reka sig þá ýmist á stjórnarskrána, samkeppnisákvæði eða bara almenna skynsemi.

Hvað varðar ummæli hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að menn verði að horfa á þjóðarhag, þá get ég líka tekið undir þau því að ég tel einmitt að frumvarpið varði þjóðarhag, þ.e. að verið sé að ná saman þessum mikilvægu hagsmunum, þ.e. hagsmunum fiskvinnslunnar og útgerðarinnar, leiða þessar tvær atvinnugreinar saman á þeim punkti þar sem fiskvinnslan getur sýnt á spilin, getur sýnt hversu mikið hún er tilbúin til að greiða og að útgerðin fái sem hæst verð fyrir sinn fisk. Það er þjóðarhagur. Ég er ekki viss um að menn nái að hámarka afraksturinn af fiskveiðiauðlindinni með þeim hugmyndum sem hv. þm. Jón Bjarnason reifaði, þ.e. að sett verði einhver regla sem gerði það að verkum að fullvinna ætti allan fisk vegna þess að það getur bara komið upp sú staða sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson benti réttilega á, að menn geti fengið meira fyrir fisk með sporði og haus en þegar búið er að vinna hann fyrir ákveðnar vinnsluaðferðir. Sú staða gæti komið upp og því skyldum við ekki einmitt reyna að hámarka verðmæti auðlindarinnar? Það eru hagsbætur fyrir íslenska þjóð sem mestu skipta.

Í sjálfu sér er ekki fleira um þetta mál að segja að sinni annað en að í tillögum nefndarinnar er getið um fleiri atriði, þar eru fleiri efnisatriði reifuð sem gætu komið að einhverju gagni og ég vænti þess að nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd geti kynnt sér þær tillögur þegar kemur að því að málið fari til nefndar.