136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:33]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á álit samkeppnisráðs varðandi ferskfiskútflutning. Samkeppnisráð hefur ekki staðið sig sem skyldi gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum almennt. Samkeppnisstaða fiskvinnslu án útgerðar er töluvert önnur en fiskvinnslu með kvóta eða með veiðiheimildir. Og varðandi verðlagningu á fiski, verðlagsstofuverð, þá hefur samkeppnisráð heldur ekki staðið sig sem skyldi.

Það eru hagsmunir útgerðarmanna að borga sem lægst fiskverð. Þess vegna er svokallað verðlagsstofuverð til sem útgerðarmenn komast upp með að nota þegar þeir eru að kaupa aflann af sjálfum sér. En það eru innan við 20% af veiddum fiski á Íslandsmiðum sem fara í gegnum fiskmarkaði. Það er líka mismunun í úthlutun og hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur örugglega áttað sig á því að það að úthluta einum en meina öðrum er í rauninni brot á samkeppnislögum, þ.e. þegar einn fær eitthvað gefins en annar ekki. En það eru sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu núna og þó svo að ég hefði kannski ekki samþykkt þetta fyrir tveimur árum, að fara í þá vegferð að skylda þá sem eru í gámaútflutningi til að flytja fisk, þá eru breyttar aðstæður núna og um tíma verðum við að horfa fram á það að við verðum að reyna að skaffa meiri atvinnu í landinu heldur en hefur verið hægt að gera.