136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er að sjálfsögðu einungis verið að fjalla um þann fisk sem seldur hefur verið út óvigtaður á erlenda fiskmarkaðinn þannig að þegar hv. þingmenn velta fyrir sér hversu mikill fiskur muni bætast við á fiskmarkaðinn þá er það einungis sem eitthvert hlutfall af þeim fiski.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við stöndum nú frammi fyrir gríðarlegum vanda í þjóðarbúi okkar og alvörukreppu. Við höfum auðvitað áður upplifað kreppur á Íslandi og sumar ansi djúpar og þarf ekki að fara mjög langt aftur í söguna til að rekast á slíkar. Þess vegna skiptir máli að sú umgjörð sem við höfum í sjávarútveginum — sem er ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og mikilvægi hennar hefur aukist mjög mikið á undanförnum vikum og mánuðum og var ærið fyrir — að við sníðum henni og búum til þann stakk utan um þá atvinnugrein að við getum búið til sem mest verðmæti úr þeirri takmörkuðu auðlind sem fiskstofnarnir við Íslandsstrendur eru. Það er á grundvelli þeirrar hugsunar sem þetta frumvarp er lagt fram.

Ég vil líka taka það fram að sá útflutningur sem hefur verið á markaðina í Hull og Grimsby hefur t.d. verið að stórum hluta í smáýsu. Þar hafa menn fengið mjög gott verð fyrir smáýsuna og ekki sjálfgefið að menn fengju t.d. miklu hærra verð fyrir hana unna á Íslandi. Það er einmitt í samhengi við það sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi, þ.e. þau sjónarmið sem skipta máli að menn fái sem mest fyrir vöruna. Ég er mjög sammála þingmanninum hvað það varðar. En af því að hv. þingmaður hefur nefnt að það séu sérástæður uppi núna þá held ég einmitt að það sé í þá áttina, að við verðum að hámarka verðmætið sem við höfum úr greinum með þessum hætti en um leið líta til þeirra sjónarmiða að tryggja að íslenska fiskvinnslan geti boðið í þennan fisk þannig að atvinna geti verið hér áfram. Það var megintilefnið með þessari lagasetningu, að tryggja þetta aðgengi og ég tel að það hafi tekist ágætlega með því frumvarpi sem hér er lagt fram.