136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafi hreyft mjög mikilvægu máli hvað varðar fiskvinnslur, margar án útgerðar, sem hafa verið mjög framsæknar í því að finna nýja markaði og nýjar afurðir og þess vegna tel ég einmitt þetta frumvarp skipta máli til að auka aðgengi þeirra að hráefni. Lykilatriði er að það yrði gert á markaðsforsendum, því það að þurfa að keppa um hráefnið og tryggja sér um leið hátt afurðaverð á móti drífur áfram nýjungar og sókn í það að koma með nýjar vörur og finna nýjar leiðir til að auka verðmætið. Ég tel að þarna hafi verið hreyft við einum af lykilþáttum þessa máls alls.

Hvað varðar reglugerðina sýnist mér nú — ég er auðvitað ekki lögfræðingur en ég sé ekki betur en að orðalagið sé nákvæmlega eins í lögunum sem við fjöllum nú að um og í upphaflegu lögunum frá 1996, þ.e. lögum nr. 57, hvað varðar reglugerðarheimildir hæstv. sjávarútvegsráðherra til að fara með þessa þætti. Við höfum því tólf ára sögu á beitingu reglugerðarheimildarinnar og ég hef ekki orðið var við að menn hafi haft áhyggjur af beitingu þeirrar heimildar í líkingu við þær sem hafa komið fram hjá hv. þingmönnum. (GAK: Þegar þetta var frjálst var engin hætta.)

Engin breyting hefur orðið með þessum þætti, þ.e. að menn bjóði upp fiskinn á uppboðsmarkaði, vegna þess að áður þurftu menn að gera grein fyrir útflutningnum til Fiskistofu og gátu þess vegna haft samband við útgerðarmennina símleiðis, eða hvernig það nú var, eða ef þeir hittust á bryggjunni. Eini munurinn er sá að nú verða menn að tilkynna þetta inn á uppboðsvef og setja þar fram lágmarksverð og geta þá tekið eða hafnað tilboðinu (Forseti hringir.) sem kemur. Það hreyfir ekki með neinum hætti við möguleikunum sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur hvað varðar reglugerðarvaldið.