136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:53]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eiginlega er ekki hægt að svara þessu andsvari öðruvísi en að lýsa því yfir að við erum sennilega nokkuð sammála um að þeir sem á undanförnum árum hafa iðulega keypt fisk hér á landi á dýrasta verðinu hafa einnig fundið dýrustu markaðina fyrir afurð sína og búið til mestan verðmætisauka. Ég tel því að góður hvati sé í því að reyna að auka aðgengi þeirra að afla sem er til sölu eða stendur til að flytja úr landi.

Ég held líka, hæstv. forseti, úr því að hv. þm. Illuga Gunnarssyni sagði þetta, að skoða megi hvort fyrirkomulagið sem við höfum á fiskverðsákvörðunum með sérstakri Verðlagsstofu skiptaverðs tryggi að menn borgi sem hæst verð fyrir aflann, sem verði þá væntanlega hvati til að menn leiti jafnan að dýrustu mörkuðum o.s.frv. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri sammála mér um að iðulega hefðu einmitt kaup á afla á hæsta verði tryggt að menn leituðu eftir framleiðslu sem gæfi hæsta verðið fyrir afurðina og þar af leiðandi hefði slíkur hvati og pressa, ef maður getur sagt svo, orðið til þess að við hefðum náð meiri verðmætum með sölu á afurðum frá Íslandi á erlendum markaði en ella.