136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Guðfinna S. Bjarnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið þó nokkuð marga aðila á sinn fund bæði frá viðskiptaráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu, bönkunum, skilanefndunum, Lögmannafélaginu og fleirum.

Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, sem eru nauðsynlegar til að auðvelda ferlið sem fram undan er hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á, á grundvelli laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Ákvæði frumvarpsins miða í fyrsta lagi að því að heimila skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis.

Í öðru lagi miða breytingarnar að því að lengja fresti og auðvelda tilkynningu fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið greiðslustöðvun.

Loks er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem heimilar frestun fyrirtöku þrátt fyrir að greiðslustöðvun hafi verið veitt fyrir gildistöku laganna.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingartillögur á þskj. 140 sem liggur frammi. Í fyrsta lagi er lagt til að tímamörk greiðslustöðvunar verði lengd enn frekar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og verði tólf vikur í stað sex eins og frumvarpið felur í sér, að héraðsdómari skuli taka greiðslustöðvun fyrir að nýju innan níu mánaða í stað sex mánaða eins og kemur fram í frumvarpinu. Að auki eru breytingartillögur sem varða aðstoðarmann.

Nefndinni barst athugasemd frá skilanefnd Landsbanka Íslands þar sem lagðar eru til breytingar á frumvarpinu, m.a. á þann hátt að skilanefnd fjármálafyrirtækja verði falið að sinna hlutverki aðstoðarmanns skuldara sem gert er ráð fyrir í III. kafla laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991. Nefndin ræddi þessa tillögu skilanefndar Landsbanka Íslands. Misjöfn sjónarmið komu fram í umræðunum, m.a. um stöðu og hlutverk aðstoðarmanns við greiðslustöðvun og eins um hlutverk, hlutlægni og starfsskilyrði skilanefndanna sem skipaðar eru af Fjármálaeftirlitinu. Niðurstaða meiri hlutans var sú að eðlilegast væri að halda í hið hefðbundna ferli við greiðslustöðvun samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., m.a. til að tryggja eins litlar breytingar á ferlinu og hægt er. Meiri hlutinn leggur þó til að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun muni ekki bera fulla skaðabótaábyrgð á framkvæmdum fjármálafyrirtækjanna á greiðslustöðvunartíma. Þessi breyting þykir nauðsynleg til að tryggja stöðu þess einstaklings sem tekur að sér hlutverk aðstoðarmanns og eins að hæfir aðilar fáist í hlutverk aðstoðarmanns við greiðslustöðvun fjármálafyrirtækjanna en hefðbundin starfsábyrgðartrygging lögmanna og löggiltra endurskoðenda, sem hæfir eru til starfa aðstoðarmanna samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., mun tæpast nægja til tryggingar fyrir hugsanlegum skaðabótakröfum í tilfelli fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á. Tillaga meiri hlutans felst þannig í því að við 2. gr. frumvarpsins bætist ákvæði sem tryggir að skaðabótaábyrgð aðstoðarmanns stofnist einungis ef viðkomandi hefur sannanlega, af ásetningi eða með stórkostlegu gáleysi, brotið af sér í starfi.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á 3. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki þannig að miða skuli frestdag fjármálafyrirtækis við það tímamark er Fjármálaeftirlitið skipaði því skilanefnd á grundvelli 100. gr. a laganna. Ákvæði laganna mælir nú aðeins fyrir um að frestdagur skuli miðast við það tímamark þegar Fjármálaeftirlitið veitti fjármálafyrirtæki frest í samræmi við 4. mgr. 86. gr. til þess að auka eiginfjárgrunn sinn en að annars skuli miða við þann dag sem héraðsdómara barst krafa Fjármálaeftirlitsins um slit félags. Með þessari tillögu er reiknað með að réttaráhrif frestdags í tilfellum fjármálafyrirtækja þar sem skilanefnd hefur verið skipuð miðist við þann dag þegar skilanefnd er skipuð. Með þessari breytingu er tryggt að heimildir gjaldþrotaskiptalaga til riftunar gerninga tapist ekki þegar skilanefndir eru skipaðar í fjármálafyrirtækjum.

Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingu sem felur í sér nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í því felst að þegar Fjármálaeftirlitið leitar eftir heimild til greiðslustöðvunar eða framlengingu greiðslustöðvunar fyrir fjármálafyrirtæki skuli slík heimild veitt án tillits til 4. eða 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Með þessu er átt við að þegar dómari tekur afstöðu til þess hvort skilyrði til greiðslustöðvunar fjármálafyrirtækjanna eru uppfyllt þá skuli 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. ekki eiga við.

Breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að auðvelda enn frekar ferli við gjaldþrot og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og telur meiri hlutinn að frumvarpið og breytingarnar á því verði til þess að hámarka eins og kostur er verðmæti eigna fjármálafyrirtækjanna og að framkvæmdin verði þannig til hagsbóta fyrir kröfuhafa fjármálafyrirtækjanna ásamt því að skapa aftur traust á íslenskt fjármálalíf.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita: Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Birgir Ármannsson, Árni Páll Árnason, Birkir Jón Jónsson, Jón Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir.

Það er afar mikilvægt fyrir okkur að endurheimta traust á íslenskt fjármálalíf. Liður í því er að sjálfsögðu að hámarka verðmæti gömlu bankanna og gera þeim mögulegt að koma til móts við kröfuhafana í eins sterkri stöðu og hægt er. Tilgangurinn með frumvarpinu er að auðvelda það ferli sem fram undan er og að verja eignir fjármálafyrirtækjanna sem nú lúta stjórn skilanefndanna til þess að hámarka virði eigna þeirra og krafna. Þetta þarf að gera í þágu hagsmunaaðila og ekki síst í þágu kröfuhafanna sjálfra. Meðal eignanna sem þessir bankar eiga eru útibú og útlánseignir, m.a. með þátttöku þessara banka í lánum, millibankalánum og stórum lánum, og svo auðvitað ýmsar kröfur á aðila víða um heim. Við kjöraðstæður er um gríðarleg verðmæti að ræða. Mögulega verða kröfuhafar hluthafar í gömlu bönkunum. (Gripið fram í: Í gömlu bönkunum?) Í bönkunum sem eru undir skilanefndunum núna. Mögulega verða kröfuhafar hluthafar í bönkunum og þess þarf að gæta að ef eignir og verðmæti bankanna hækka frá því sem nú er þá er það þeirra hagur. Ljóst er að viðskiptabréf eru illseljanleg í dag á viðunandi kjörum og því líklegt að mikil verðmæti mundu tapast ef gert væri upp á þeim grundvelli. Ef kröfuhafar koma að gætu þeir frekar notið uppsveiflunnar þegar hún kemur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að frestir verði lengdir í tengslum við greiðslustöðvun, komi til hennar. Þessir frestir eru ekki síst til að ná utan um kröfuhafana og til að gefa þeim rými til að stilla sér saman í hópa sem þeir eru þegar að gera. Ég ítreka að það er mikilvægt að við náum góðri samvinnu við þá og að þeir komi að endurskipulagningarferlinu sem fram undan er.

Virðulegi forseti. Óskað hefur verið eftir að málið fari aftur til nefndar fyrir 3. umr.