136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[14:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum farið vel yfir þessa þætti í viðskiptanefnd og fjallað um þá á nokkrum fundum nefndarinnar. Þeir sem að þessum málum hafa komið, hvort sem um er að ræða viðskiptaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið eða skilanefndarfólk, að kannski einum fulltrúa undanskildum, eru sammála um að sú leið sem hér er lögð til sé til þess fallin að koma í veg fyrir stórfelldan eignabruna erlendis. Það er alltaf hættan í þessum málum, sérstaklega þegar um er að ræða fyrirtæki af þessari stærðargráðu með hagsmuni og tengsl út um allan heim, að lendi eignirnar inn í hefðbundið gjaldþrotaskiptaferli verði nauðsynlegt að selja þær á verði sem ekki er það hagstæðasta sem hægt er fá fyrir viðkomandi eign. Þetta er auðvitað ákveðinn liður í að reyna að koma í veg fyrir það.

Annað atriði skiptir líka máli í þessu sambandi. Það er að einmitt um þessar mundir, áður en í rauninni er hægt að segja til um hvort fyrirtækin eru gjaldþrota eða ekki, þarf um leið að verja ýmsar eignir bankanna erlendis fyrir ásókn einstakra kröfuhafa. Í nefndinni kom mjög skýrt fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu til þess fallnar að koma í veg fyrir að einstakir kröfuhafar geti með réttarfarslegum aðgerðum í öðrum löndum í raun skert verðmæti þeirra eigna sem enn eru í þessum búum. Það er skýringin á því að menn sitja ekki bara rólegir, halla sér aftur og sjá svo til hvort niðurstaðan eftir einhvern tíma verði sú að þörf sé á gjaldþrotaskiptum. (Forseti hringir.) Þarna er um að ræða aðgerðir til að koma í veg fyrir eignabruna. Óvenjulegar aðgerðir sem stafa auðvitað af fullkomlega óeðlilegum (Forseti hringir.) og óvenjulegum aðstæðum.