136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:13]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú kannski mergurinn málsins að full ástæða væri til að gera breytingar á gjaldþrotaskiptalögunum. Eins og ég gat um í ræðu minni mundi það skipta máli ef rýmri heimildir væru í gjaldþrotaskiptalögunum til að lengja frest og auðvelda bæði einstaklingum og fyrirtækjum að komast (Gripið fram í.) hjá gjaldþroti. Það get ég algjörlega tekið undir.

Af því ég hef sagt það opinberlega get ég ítrekað það hér: Ég tel að handverkið í sambandi við ákvæði neyðarlaganna hafi að hluta til verið óeðlilegt. Það sem Fjármálaeftirlitinu var fengið að gera varðandi bankana og skipan skilanefnda hefði átt að vera á forræði Seðlabanka Íslands. Ég hef lýst því yfir að ég geti ekki séð annað en að með því að fela Fjármálaeftirlitinu það verk sem raunverulega hefði átt að heyra undir Seðlabanka Íslands hafi ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir í raun lýst afgerandi vantrausti á Seðlabanka Íslands. Það var Seðlabanki Íslands sem yfirbankinn í landinu sem átti að koma að því verki en ekki Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið er eftirlitsaðili og það var að mínu viti óeðlilegt í neyðarlögunum svokölluðu að hafa þann háttinn á. Ég hef ítrekað lýst þeirri skoðun minni.

En Seðlabankanum var greinilega ekki treyst til þess að vinna þetta verk. Það þurfti einhver annar að gera það og kannski var Fjármálaeftirlitið til þrautavara besti kosturinn hvað það varðar.

Ég get ekki séð annað en að við séum hér eingöngu að veita rýmri heimildir, frávik, til þess að takmarka tjón og draga úr hættunni á því að eignir skerðist. Þess vegna skiptir máli að þetta frumvarp (Forseti hringir.) verði að lögum.