136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get endurtekið það sem ég sagði áðan: Ég er ekki að tala um að ljúka gjaldþrotaskiptum þessara fyrirtækja í dag eða á morgun. Ég er að tala um að taka fyrirtæki sem eru sannarlega gjaldþrota, sem eru gjaldþrota de facto, til gjaldþrotaskipta. Hv. þingmaður veit sem lögmaður að hægt er að gera nákvæmlega það sama undir gjaldþrotaskiptum og gert er í greiðslustöðvun. Það er hægt að leita nauðasamninga. Það er hægt að reka fyrirtækin áfram og hefur margoft verið gert. Nefnd hafa verið dæmi þess að fyrirtæki hafi sem slík verið rekin í átta ár með þeim hætti.

Það er enginn að segja að með því að taka þessi bú til gjaldþrotaskipta sé verið að setja allt á brunaútsölu. Það sem við erum að segja er að með því er verið að fara með hlutina inn í þekkt gagnsætt opið ferli sem mismunar ekki kröfuhöfum og er ekki undir stjórn Fjármálaeftirlitsins eða þeirra sem skipaðir voru í skilanefndir gömlu bankanna. Við skulum muna að með neyðarlögunum voru bæði Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar gerðar ábyrgðarlausar. Með frumvarpinu sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun, aðstoðarmaður við Fjármálaeftirlitið og skilanefndina, verði líka ábyrgðarlaus.

Ég segi alveg hreint eins og er, hv. þingmaður, að ég tel eðlilegra að við göngum fram í þessu máli samkvæmt þeim lögum sem gilt hafa í landinu í hundrað ár. Það er langt í frá að nauður þurfi að reka til að selja allar eignir á brunaútsölu. Það hefur aldrei tíðkast, hv. þingmaður.