136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem skiptir máli hér er að fara í gagnsætt opið ferli. Það má vera hundrað ára gamalt og það er þá bara því til hróss vegna þess að erlendir sem innlendir kröfuhafar þekkja það ferli. Hæstv. ríkisstjórn hefur hins vegar valið þá leið að gera allt fyrir luktum dyrum. Koma hér inn með mál algjörlega án ráðslags við stjórnarandstöðuna. Og ég endurtek: Það er vegna þess að hún treystir hvorki þingi né þjóð fyrir því sem hún er að pukrast með.

Hv. þm. Árni Páll Árnason endurtók það hér að ástæðan fyrir því að nauðsynlegt sé að kippa gjaldþrotalögunum úr sambandi sé sú að sú stórfellda vá sé annars fyrir dyrum að þessar eignir fari forgörðum. Þess eru mýmörg dæmi að þrotabú hafi verið rekin um lengri eða skemmri tíma. Það fer allt eftir hagsmununum. Sjálf þekki ég mjög vel til reksturs slíkra búa og af því að hæstv. iðnaðarráðherra er genginn í salinn er ég hér að tala um laxeldisstöðvar sem fóru margar hverjar á hausinn á árum áður, voru teknar til gjaldþrotaskipta. Þær voru auðvitað reknar meðan fiskurinn var að vaxa til þess að fá verðmæti út úr því. Það var ekkert vit í því að slátra fiskinum meðan hann var ekki sláturhæfur. (Gripið fram í.)

Þetta er það sem skiptir máli við rekstur gjaldþrotabúa. Það er að fá sem mest út úr eignunum og að það sem út úr þeim fæst skiptist jafnt á milli kröfuhafa með tilliti til hagsmuna þeirra. Ekki með tilliti til eigendanna, ég tala nú ekki um þeirra sem hafa verið að pukrast með eignirnar undanfarnar vikur.

Ég mótmæli því harðlega að ég hafi gert aðför að faglegum heiðri þeirra manna sem skipa skilanefndirnar enda þótt ég hafi leyft mér að gagnrýna að þeir hafa sent (Forseti hringir.) hverju mannsbarni 625 þús. kr. reikning. (Gripið fram í.) Það er leyndarmál. Það er leyndarmál (Forseti hringir.) eins og annað hjá hæstv. ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Það ætti stjórnarþingmaðurinn Árni Páll Árnason að vita.