136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[16:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég lýsi eindregnum stuðningi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við aðgerðirnar sem hér eru lagðar til og eru til þess fallnar að styrkja Íbúðalánasjóð í því mikilvæga hlutverki sínu að koma í veg fyrir að menn missi íbúðarhúsnæði sitt vegna erfiðleika í fjármálum og bankamálum þjóðarinnar. Hér er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti lengt lánstíma skuldbreytingarlána og nýrra lána og lengt upphaflegan lánstíma eldri lána vegna greiðsluerfiðleika, í báðum tilvikum um allt að 30 ár í stað 15 ára eins og nú er. Auk þess er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti við sérstakar aðstæður leigt fyrrverandi húseiganda íbúðarhúsnæðið svo hann þurfi ekki að fara burt af heimilinu. Þetta er mjög mikilvægt atriði og ég vil rifja upp að tveir virtir hagfræðingar skrifuðu á dögunum grein í Morgunblaðið þar sem þeir stungu upp á því að ríkið, Íbúðalánasjóður, gæti eignast hlut á móti eigendum íbúðarhúsnæðis sem síðan gætu eins og með kaupleigu eignast hlut sinn aftur. Ég tel mjög mikilvægt að hv. félagsmálanefnd skoði vandlega tillögur hagfræðinganna við afgreiðslu málsins.

Þó að ekki sé um mikil útgjöld að ræða úr ríkissjóði — það kemur fram að áætlað er að lenging lánanna og fleiri aðgerðir sem hér eru raktar kosti um 21,5 millj. kr. — er þetta gríðarlega mikilvægt. Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að áætlað er að 2–2,5 stöðugildi muni bætast við hjá Íbúðalánasjóði.

Ég spyr af þessu tilefni hæstv. ráðherra um framtíð Íbúðalánasjóðs: Hvað líður málskoti gömlu bankanna til ESA í þeim tilgangi að loka Íbúðalánasjóði í núverandi mynd sem félagslegum íbúðalánasjóði með ríkisábyrgðum? Ég held að það hafi verið mikið gæfuspor að fyrrverandi ríkisstjórn tókst ekki að ganga á milli bols og höfuðs á Íbúðalánasjóði. Ég vil minna á af þessu tilefni að eitt af því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til á síðasta ári að ætti að gera í efnahagsmálum Íslendinga var að taka ríkisábyrgðir af Íbúðalánasjóði í þeim tilgangi að koma öllum íbúðalánum inn á markaðinn. Það er frábært að við eigum þennan öfluga, félagslega sjóð, við þurfum að styrkja hann og ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála um það.

Það mun ekki standa á þingmönnum Vinstri grænna að greiða götu frumvarpsins sem sannarlega er gott, en ég vil samt sem áður formsins vegna minna hæstv. ráðherra á það að það er ekki verra að hafa samráð við stjórnarandstöðuna fyrir fram við gerð þingmála þegar óskað er eftir skjótri afgreiðslu í gegnum þingið.