136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:03]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að tala um leigu til skamms tíma og það auðvitað skiptir máli hvort það eru tveir, þrír mánuðir eða eitthvað rúmlega það, hálft ár eða hvort vandamál er svo stórt að um verði að ræða tvö eða þrjú ár. Ég hef talið það. Ég hefði líka viljað að þó að þetta væri bara til tveggja eða þriggja ára þá hefði viðkomandi leiguaðili möguleika á að kaupa viðkomandi húsnæði aftur á einhverju matsverði.

Það vantar meira inn í frumvarpið til þess að það verði virkilega gott, t.d. að verðtrygging verði endurskoðuð og opnaðar verði neyðarstofur fyrir fólk sem jafnvel mun lenda í verulegum hörmungum eins og við má búast. Fjöldi fólks á nú þegar orðið mjög erfitt, sér ekki til sólar og sér ekki neina von í sínum málum. Það þarf að reyna að mæta þessu fólki með einhverjum hætti.

Við höfum lagt það til að byrjað yrði á því að frysta í þrjá mánuði alla verðtryggingu og allar skuldir af erlendum lánum, a.m.k. hjá þeim sem þess óska á meðan það skýrist hvað þetta verður alvarlegt og hvað verður hægt að gera því það er bersýnilegt að það dregst á langinn enda eru nú komnar fimm vikur frá því að bankarnir hrundu. Það er ekkert að sjá og það er ekki verið að senda nein skilaboð til fólksins. Þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum eitthvert hænufet stigið í rétta átt. Fólk veit (Forseti hringir.) ekkert á hvaða vegferð það er og verður.