136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:13]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að best sé að byrja á að þakka almættinu fyrir að við skulum enn þá hafa Íbúðalánasjóð og geta byggt á honum í þessum skelfilegu þrengingum sem við, íslenska þjóðin, erum að lenda í. Mér sýnist frumvarpið sem lagt er fram af hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sé mjög til bóta. Brugðist er við því ástandi sem uppi er — og hefur svo sem verið gert fyrr af hæstv. ráðherra með heimildum sem falla innan núverandi laga um Íbúðalánasjóð — með því að afla lagaheimilda til viðbótar svo Íbúðalánasjóður megi leigja út íbúðir eða fá leigumiðlun til að sjá um útleigu á íbúðarhúsnæði og um það verða síðan settar nánari reglur af ráðherra.

Einnig er gefinn kostur á að lengja lánstíma allt frá 15 árum og upp í 30 ár þegar fólk lendir í greiðsluerfiðleikum. Báðar aðgerðir lagafrumvarpsins, sem er ekki margar lagagreinar, eru til mikilla bóta í því erfiða ástandi sem við búum við. Að mínu viti, hæstv. forseti, er eitt meginverkefna okkar að bregðast við því að fjölskyldur lendi ekki á hrakhólum með þeirri miklu greiðslubyrði sem lendir á venjulegu fólki sem átti sér einskis ills von, eða ekki í þeim mæli sem hér hefur verið í kjölfar fjárglæfra — held ég að sé óhætt að segja um starfsemi bankakerfisins og afleiðingar hennar fyrir íslensku þjóðina og almenning í landinu. Við erum í neyðaraðgerðum til að reyna að bregðast við því sem upp kemur og ég fagna frumvarpi hæstv. ráðherra og lýsi yfir stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við aðgerðirnar sem hér eru boðaðar.

Ég held að einnig sé mjög mikilvægt að horfa til þess á komandi vikum hvernig við skoðum hina svokölluðu verðtryggingu sem mælir lánin hratt upp í núverandi ástandi, svo hratt að nánast er eignabruni hjá fólki auk þess að á sama tíma eru líkur á að íbúðaverð hrynji hratt og lækki verulega. Hver sem lítur á verðtryggingu og þróun íbúðaverðs veit að fólk sem taldi sig vera í ágætismálum í fasteignakaupum fyrir rúmu ári síðan og eiga þó nokkrar milljónir í eignum þrátt fyrir að hafa nýlega fest kaup á húsnæði, hefur misst þá eign og skuldirnar munu halda áfram að vaxa með þeim hraða sem fylgir núverandi ákvæði um lánveitingar, verðtryggingu vegna verðbólgunnar og vísitölutrygging lána. Upphæðir í gengislánum hafa farið enn hraðar upp en þar er sá munur á að takist okkur að stilla gengi krónunnar af — hvernig svo sem við förum að því — munu þær skuldbindingar lækka verulega miðað við það sem nú er, en það er auðvitað háð þeirri miklu óvissu sem er um gjaldeyri okkar og hvar við getum í raun og veru fest íslensku krónuna.

Í því sambandi, hæstv. forseti, hef ég miklar efasemdir um að okkur takist að ná krónunni í eðlilegar viðmiðanir með svokallaðri flotaðferð, ég er mjög efins um það. Efasemdir mínar aukast bara eftir því sem dagarnir líða og við gætum þurft að fara aðra leið sem er þá að halda uppi skömmtun gjaldeyris um einhvern tíma og reyna þannig að festa krónuna niður og byggja upp gjaldeyrissjóð í landinu. Það er ákvæði um að við skráum gengið fast og skömmtum gjaldeyri. Hvorugur kosturinn er góður en ég held að óvissan um flotkrónuna sé orðin óhemjumikil og mikil hætta á því að við náum ekki valdi á krónunni með þeim hætti þótt ég voni það ef niðurstaðan verður að fara þá leið.

Ég vil líka vekja athygli á því að verðbólgan og viðmið hennar, verðtryggingin, er auðvitað ákvörðun sem tekin var og er mannanna verk og væntanlega okkar þingmanna á löggjafarþinginu að ákveða það hvaða viðmiðunum við ætlum að halda uppi í verðtryggingum. Það er starfshópur ef ég veit rétt á vegum félags- og tryggingamálaráðherra sem skoðar sérstaklega hvernig eigi með að fara en ljóst er að Íslendingar munu ekki ráða við verðtryggingar lánaskuldbindinga eins og þær eru nú.

Hæstv. forseti. Ég tel að nú muni reyna á með hvaða hætti við ætlum að bregðast við því að lagfæra verðtrygginguna sem verið hefur hérlendis. Vísitöluverðtrygging krónunnar sem við höfum búið við mörg undanfarin ár er allt annað fyrirkomulag en gerist í löndunum í kringum okkur. Þar sem þetta eru mannanna verk getum við tekið ákvörðun um að viðmiðunin við verðtrygginguna verði einhver önnur, taki t.d. mið af launaþróun eða reiknist ekki að fullu eins og nú standa sakir. Mér sýnist að ef verðtrygging verður reiknuð að fullu næstu mánuði inn á skuldir heimilanna muni verða slíkur eignabruni í landinu hjá venjulegu fólki að fæstir sem eitthvað skulda muni eiga neitt í íbúðum sínum. Það getur ekki verið markmið okkar, hæstv. forseti, að eignir fólks séu engar þegar upp er staðið eftir þessa kollsteypu, þrátt fyrir að við viljum reyna að hafa einhverja tryggingu fyrir því að innborganir og inneignir fólks, þar með taldir lífeyrissjóðirnir okkar, brenni ekki algerlega upp. Ég held að allir þingmenn hljóti að vera tilbúnir til að skoða málin í því ljósi. Hvernig stilla á þá viðmiðun skal ég ekki fullyrða um en hún er auðvitað vandasöm því hún virkar ekki bara á þá sem skulda, hún virkar líka á þá sem eiga fjármuni og þá horfum við mest til lífeyrissjóðanna.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni að við núverandi aðstæður ætti að frysta algerlega verðbólgureikning inn á lán og hæstv. ráðherra hefur þegar komið því í verk að fólk getur fengið að fresta afborgunum af lánum til talsvert langs tíma en greiðir þá væntanlega vexti. Þar er reynt að koma til móts við þær einkennilegu aðstæður sem íslenska þjóðin hefur nú lent í.

Hæstv. ráðherra vék líka að stimpilgjöldunum. Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt til að stimpilgjöld af öllum viðskiptum með húsnæði og samningum sem tengjast því verði felld niður og ég heyrði á máli hæstv. ráðherra að unnið væri að afnámi stimpilgjalda svo fólk gæti m.a. endurskipulagt lán sín án þess að borga stimpilgjöld. Ég fagna því en tel að stíga eigi skrefið til fulls þegar kemur að húsnæðisskuldbindingum fólks og fella stimpilgjöldin niður að öllu leyti þegar fólk fjárfestir í húsi eða þarf að breyta kjörum á skuldasamningum sínum.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að margir sem fjárfestu í nýrri íbúð og ætluðu að selja þá eldri hafa lent í vandræðum vegna þess að markaður fyrir íbúðir hefur hrunið og mönnum hefur ekki tekist að selja eldri íbúðir. Þær eru væntanlega í leigu en við vitum, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að fleiri þúsund íbúðir standa til boða á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að tala þeirra sé einhvers staðar í kringum 2.500 eða 2.700 þannig að allar líkur eru á því að leiga muni einnig lækka og þar af leiðandi minnki tekjur fólks sem hefur leigt íbúðir sem það hefur ekki getað selt og það mun enn auka á vanda vegna verðtryggðra skulda og skulda sem bundnar eru í erlendum lánum, erlendum gjaldeyri og aukast hratt við núverandi aðstæður.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér séu góð skref stigin og vænti þess að það sem hæstv. ráðherra lýsti í ræðu sinni gangi eftir, sérstaklega í ljósi þess sem hæstv. ráðherra nefndi að þeim sem nú sækja um lausnir vegna stöðu sinnar, greiðsluerfiðleika og þess er varðaði Íbúðalánasjóð og húsnæðislán hefði fjölgað um hundruð síðustu vikur og það sýnir okkur í hvers konar erfiðleika við stefnum. Þess vegna segi ég enn og aftur að ég þakka guði fyrir að við eigum Íbúðalánasjóð og getum notað hann í þessum þrengingum og viðhaldið honum og vænti þess að hæstv. ráðherra haldi áfram að vinna að stefnumótuninni sem hún hefur lýst og að mjög fljótlega komi niðurstaða úr nefndinni sem skoðar verðtrygginguna. Ég tel, eins og ég hef lýst í máli mínu, að við því verði að bregðast sérstaklega. Fólk muni ekki ráða við verðtrygginguna eins og hún gengur upp núna í verðbólgunni og ég tala nú ekki um ef verðbólga stendur í einhvern tíma eða vex enn. Eignabruninn er svo hraður þegar á móti fer lækkandi verð á viðkomandi eignum að nánast allt brennur upp sem fólk hafði eignast og komið sér upp. Við verðum auðvitað að reyna að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum, bæði fyrir heimilin í landinu og lán fólks.

Hinn hluti málsins er að reyna að halda uppi atvinnu í landinu. Eitt meginmálið sem við stöndum frammi fyrir nú er að reyna að tryggja það að atvinna haldist og fólk lendi ekki í atvinnuleysi ofan í auknar skuldir og erfiðleika. Þar finnst mér skorta, alla vega af því sem ég hef skynjað, beinar tillögur og ákveðnar lausnir. Ég skynja á verkum ráðherra sem mælir fyrir þessu máli í dag að þar er unnið nokkuð markvisst í ýmsar áttir við að taka á vandamálunum sem fram undan eru en mér finnst skorta á það varðandi atvinnulífið. Ég held að menn verði að setja upp aðgerðaáætlun fyrir minni fyrirtæki. Við megum ekki missa frumkvöðlana og þá sem reka einstaklingsfyrirtækin. Þau eru venjulega undirstaða þess að stærri og arðvænlegri atvinnufyrirtæki verði til í framtíðinni.