136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti athyglisverða ræðu um verðtrygginguna og talar fyrir því að hún verði látin mæla áfram í núverandi ástandi. Hann kemur réttilega inn á að búast megi við að verðbólgan fái ákveðið eldsneyti með stýrivaxtahækkuninni en gleymir þó að segja af hverju hagfræðingar hafa mælt með þeirri leið, margir hverjir, en það er þó þannig að ráðleggingarnar eru alltaf misvísandi. Meginrökin fyrir stýrivaxtahækkuninni voru að aðalhvati verðbólgunnar í dag sé gengi krónunnar og að sem allra fyrst þurfi að reyna að ná tökum á því gengi og þetta sé ein leiðin til þess. Ég ætla ekki að fullyrða hvort þetta tekst eður ei en treysti þó á að spá Seðlabankans, sem er mjög svartsýnisleg, um að meðalverðbólga verði þrátt fyrir þessar aðgerðir milli 4 og 5% á næsta ári, ef ég man rétt, gangi eftir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því að ég heyrði ekki margar tillögur um hvernig ætti að gera þetta. Það mátti þó helst skilja af máli hans að verðbólgan og allt mundi lagast ef ríkisstjórnin viki og efnt yrði til kosninga eða eitthvað slíkt, því að hann gefur í skyn að það sé eingöngu ríkisstjórnin sem sé vandamálið. Ég hef kvartað yfir því undanfarið, bæði í félags- og tryggingamálanefnd og almennt, að það sé lítið um úrræði en meira um gagnrýni og mig langar því að heyra hvernig eigi að tryggja að þetta misgengi verði ekki ef ekki má hrófla við verðtryggingunni og hvernig hv. þingmaður ætlar að tryggja að við náum tökum á genginu, þessari veiku krónu okkar, vitandi að hann hefur ekki áhuga á að skipta um gjaldmiðil, og hvaða tillögur hann hefur til lausnar á þessu máli þannig að alþjóð fái að heyra það.