136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi legg ég til að menn hætti að tala gjaldmiðilinn niður eins og Samfylkingin hefur gert og við reynum að sameinast um að tala hann upp. Ástæðan fyrir því að vextirnir voru hækkaðir sem þessu nemur, um 50% fyrir fáeinum dögum, er sú að stjórnvöld eru meðvituð um að inni í fjármálakerfinu er mikið erlent fjármagn sem leitar út og til að freista þessa fjármagns að halda sig áfram inni í íslensku fjármálaumhverfi eru vextirnir hækkaðir þannig að eigendur þessa fjármagns sjái hag sinn í því að halda því áfram þar.

Síðan búum við við þá ógæfu að hafa ríkisstjórn og hæstv. ráðherra sem lýsa því yfir um leið og þetta er gert að þetta muni vara mjög stutt sem er náttúrlega yfirlýsing í garð þeirra sem eiga fjármagnið um að hypja sig úr landi sem allra fyrst. Þetta er náttúrlega eins mótsagnakennt og ruglað hvernig stjórnvöld standa að þessu en þetta var ástæðan fyrir því að menn færðu upp vextina til að halda í fjármagnið og reyna að draga úr fjármagnsstreyminu úr landinu.

Hvað við getum síðan gert til að hamla gegn þessu vegna þess að við komumst ekki inn í annan gjaldmiðil þótt við gjarnan vildum eða vilji væri til þess, við gerum það ekki næstu mánuðina. Það er tvennt: Að reyna að ganga eins langt í að stýra og festa gengið og við getum, hvort sem við færum þá út í eitthvert flot að einhverju marki, og að reyna að róa markaðinn, reyna að hamla gegn því alla vega að Íslendingar fari með fjármagn sitt úr landi. Þá ríður á að samfélagið allt og pólitíkin öll og jafnvel Samfylkingin líka sameinist um að reyna að skapa þessa ró. Þetta er bara samfélagslegt átak sem við þurfum að ráðast í. Þetta er tillaga út af fyrir sig. Og af því að hv. þingmaður telur (Forseti hringir.) að við séum ekki með neinar tillögur skal ég halda áfram og bið auk þess um orðið fyrir aðra ræðu.