136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gefur í skyn að ég hafi talað um að meginástæða þess að verðgildi krónunnar hafi hrapað sé afstaða Samfylkingarinnar, hún hafi talað gjaldmiðilinn niður. Ég hef aldrei sagt það. Auðvitað eru ástæðurnar allt aðrar fyrir þeim hremmingum sem við stöndum frammi fyrir. Ég frábið að snúið sé út úr orðum mínum með þessum hætti. Ég sagði hins vegar að það skipti miklu máli við þessar aðstæður að við sameinuðust um að skapa ró á fjármálamarkaði, einnig Samfylkingin sem hefur talað gjaldmiðilinn niður. Ef við ætlum að fara út á þá braut sem mér sýnist við gera með einhverri blöndu af því að hleypa krónunni á flot og hafa hemil á henni, það virðist mér vera sú formúla sem er uppi núna, tala ég fyrir því að við sameinumst um þá leið. Ég sagði ekkert annað.

Þegar talað er um lausnir sem menn hafa vil ég nefna tvennt: Ég sagði að við hefðum ekki átt að handstýra vöxtunum upp á við eins og gert var. Ég tel það mjög varhugavert vegna þess ... (Gripið fram í.) — nei, ég er að tala um ákvörðunina nú um daginn um að hækka stýrivextina um 50% í þeirri von, ég skil alveg hvers vegna það var gert. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrirskipaði það og hann gerði það vegna þess að hann telur að með því móti sé hægt að hamla gegn útstreymi fjármagns úr landinu. Ég segi að áhættan sé svo mikil af þessari hækkun að hún sé ekki þess virði vegna þess að heimilin og fyrirtækin koma ekki til með að þola hana. Það er mín röksemd. Það þýðir ekki að koma og segja við fólk sem reynir að taka þátt í umræðunni að það hafi engar tillögur og að ekkert innihald sé í því sem það segir. Menn verða að hlusta á röksemdir annarra.

Síðan er ég með hugmyndir um hvernig (Forseti hringir.) menn geti gripið til annarra ráða en geri grein fyrir þeim í ræðu minni síðar.