136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál. Hér hefur farið fram ágæt umræða. Það eru ekki deilur um frumvarpið í sjálfu sér. Ég mun styðja það, greiða atkvæði með því. Verið er að grípa til ráðstafana sem eru eðlilegar og heppilegar til að létta fólki um stund. Ég bendi einvörðungu á að það er mótsögn fólgin í því að segjast vera að bæta stöðu skuldara um leið og vextirnir eru hækkaðir sem kemur til með að kyrkja heimilin og fyrirtækin. Það sem mig langaði til að bæta við er að það er mikilvægt að menn skoði aðrar leiðir líka, t.d. breytingu á vísitöluútreikningum. Komið hefur fram í félagsmálanefnd af hálfu hæstv. ráðherra að uppi séu ráðagerðir t.d. um að skoða útfærslu sem gangi út á að reikna mismuninn á þróun almennrar vísitölu og launavísitölu og skjóta mismuninum þar á milli á frest inn í framtíðina. Það er tillaga sem kom fram á 9. áratugnum og aftur á þeim 10., svo að ég vitni í núverandi hæstv. forseta þingsins. Hann var einn af þeim sem fluttu slíkt frumvarp 1992 eða 1993. Það er ágæt hugsun finnst mér.

Spyrja mætti einnig hvort ganga eigi lengra og að skoða hvort launavísitalan eigi kannski að vera sú vísitala sem miðað er við þegar lánin eru annars vegar. Ég geri það að tillögu minni, það er nokkuð sem við ættum að taka til skoðunar. Þegar ég tala um vísitöluna og afnám vísitölu á verðtryggðum lánum er ég einvörðungu að meina að mér finnst það vera æskilegt markmið inn í framtíðina að ná verðbólgunni niður og koma vísitölubindingu lána út úr heiminum. Það finnst mér vera æskilegt markmið vegna þess að óverðtryggð lán eru ódýrari lán þegar upp er staðið. Það er staðreynd. En í óðaverðbólgu og mikilli verðtryggingu eru það engu að síður lán sem fólk ræður betur við að greiða af en af óverðtryggðum lánum. Það eru hlutir sem við þurfum einfaldlega að skoða, ekki á einhvern „popolískan“ hátt, við þurfum að skoða hvernig það kemur raunverulega út fyrir skuldtakandann þannig að við tryggjum að raunvextir séu sem allra lægstir, byrðarnar sem allra minnstar á honum en jafnframt, þegar til lengri tíma er litið, að huga að fyrirkomulagi sem gerir lántökuna eins ódýra og kostur er.